29.10.08

úrslit ljós eftir viku

Jæja, þá er vika í það að þessari nærri tveggja ára löngu kosningabaráttu ljúki. Þingkosningarnar 2006 voru áhugaverðar fyrir ýmsar sakir, og árangursríkar fyrir demókrata. Þeir unnu mikið á og hafa náð að skapa farveg fyrir enn sterkara framboð demókrata í ár. Obama hefur notið góðs af þessu og heldur áfram að gera það. Nú er mikið lagt upp úr því að McCain sé að síga á Obama í könnunum en mér sýnist það vera á landsvísu og þegar ríkin eru skoðuð hvert fyrir sig er Obama enn með forskot. Hér er góð samantekt á Reuters um ástandið í átakaríkjunum, hverju fyrir sig. Obama virðist vera sterkari í þeim flestum, í Virginíu er hann með töluvert forskot en repúblikani hefur unnið í forsetakosningum þar frá því 1964 (grein í Time um það af hverju Virginía hallast að Obama). Í Ohio er hann aðeins óstöðugri, kannanir eru misvísandi og McCain var með sama forskot í einni könnun og Obama var með í annarri. Hér skiptir máli að enginn repúblikani hefur orðið forseti án þess að sigra í Ohio. Norður-Karólína hefur verið öruggt repúblikanaríki lengi, en nú eru frambjóðendurnir hnífjafnir.

Könnunin sem var hampað í gær sem sönnun þess að McCain væri að síga á Obama var gerð fyrir Zogby. Hún var gerð frá laugardegi til mánudags, dagana eftir að Obama var í Hawaii að heimsækja ömmu sína og því lítið sjálfur í baráttunni. Þetta gæti hafa haft áhrif. Mánudagurinn var áberandi bestur hjá honum í könnuninni, segir John Zogby. og hér bætir hann við að Obama hafi enn umtalsvert forskot meðal hispanics og kaþólikka. Báðir þessir hópar studdu Bush 2004. Það er vika í kosningar, og McCain er ekki í nógu sterkri stöðu til að vinna meðal lykilhópa - og hann er að renna út á tíma.

McCain hefur gert mikið úr því að Obama vilji endurdreifingu fjármagns, og í dag var mikið bloggað og skrifað um viðtal sem var tekið við hann 2001 þar sem hann notaði hugtakið redistribution. Annað sem McCain reynir að nota er að demókratarnir hafi stjórn á þinginu og það sé ekki gott að sami flokkurinn sé við stjórn. Gallup tékkaði á skoðun kjósenda á þessu. Ef McCain væri forseti vildu 57% þeirra hafa annan flokk ráðandi í þinginu, 38% myndu vilja að sami flokkurinn væri við völd. Ef Obama væri forseti vilja 48% kjósenda hafa ólíka flokka, en 47% þann sama. Sumsé ekki mikið traust til McCains þarna heldur.

Hér er skemmtileg grein sem ber Obama saman við Clinton, og segir að þeir hafi báðir hæfileika til að skynja að hverju kjósendur eru að leita, og það er önnur framtíð en nútíðin virðist stefna í. Obama gefur fólki von, hvort sem sú von er eitthvað sem hann getur gert að veruleika eða ekki. Rannsóknin hér bendir til að það styrki stöðu hans í kosningunum.

Allar þessar kannanir eru auðvitað bara spádómar - við fáum að vita niðurstöðuna eftir viku. Ef við gætum bara verið viss um að þá yrði ljóst hvað gerist hér heima, þá liði mér mun betur!
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment