3.10.08

can I call you Joe?


Þetta voru nú aldeilis skemmtilegri kappræður en í síðustu viku. Lína kvöldsins og það sem skapaði stemninguna var þegar Palin spurði Biden um leið og þau tókust í hendur hvort hún mætti ekki kalla hann Joe. Hún slúttaði eins, gekk beint að Gwen Ifill og sagði "takk, Gwen". Inn á milli datt hún af og til í að þylja utanbókar svör sem hún hafði lagt á minnið og hljómaði þá stundum svolítið stirð og röddin skalf jafnvel aðeins. En þegar hún náði að bregðast eðlilega við og tengja eigin sögur við svörin var hún mjög fín, kannski helst að munurinn var svo greinilegur hvað kom frá henni og hvað var þulið upp. Peggy Noonan á WSJ er heilluð af frammistöðu Palin. og niðurstöðurnar hjá CNN sýna að mikill meirihluti -86%- taldi Palin hafa staðið sig betur en búist var við. Það dugði þó ekki til, því 70% sögðu Biden skilja aðstæður sínar betur en Palin, en sama hlutfall sagði að hann væri meiri pólitíkus. Hún spilaði líka vel úr því og sagðist ekki myndu svara spurningum eins og fjölmiðlar vildu því hún væri ekki Washington Insider heldur vildi hún tala beint við bandarísku þjóðina. Það virkaði þó ekki vel að minna á hvað hún er ný, því þegar hún sagðist bara hafa verið í þessu framboði í fimm vikur og ekki hafa lofað miklu á þeim tíma, þá sýndu mælarnir mjög neikvæð viðbrögð. Í viðtali á eftir tók einn áhorfandi einmitt fram að það hefði haft neikvæð áhrif á sig, því ef hún væri svona óreynd gæti hún varla áorkað miklu.

Ég horfði á kappræðurnar á CNN, þar sem hægt var að fylgjast með viðbrögðum 32ja áhorfenda í Ohio, það sem stóð upp úr með það fannst mér að karlarnir brugðust betur við Palin og konurnar betur við Biden - almennt. Þegar Palin talaði um að margir foreldrar væru hræddir um börnin sín í stríð komu toppar hjá konunum, þegar hún talaði um að eigendur lítilla fyrirtækja fyndu fyrir erfiðleikum komu toppar hjá körlunum. Hins vegar fékk það mjög léleg viðbrögð þegar hún sagði að McCain hefði sett mál ríkisins í forgang með því að fara til DC í síðustu viku. Hún reddaði sér samt út úr því með klisjunni um að bandarískir launþegar væru þeir bestu í heimi. Áhugavert líka að einfaralínan hennar fékk dræmar undirtektir en að berjast gegn spillingu sló í gegn.

Málefnin sem voru tekin fyrir voru gamalkunnug - efnahagurinn, stríðið í Írak, loftslagsmálin. Um það forðaðist hún að segja að hún teldi loftslagsbreytingar ekki vera af mannavöldum, heldur einblíndi á að takast á við afleiðingar þeirra og sagði að við þyrftum að breyta hegðun okkar að einhverju leyti þó þetta væri líka út af sveiflum í veðri. Sumsé ekki svo mikill einfari að hún gangi gegn ráðandi orðræðu og skilningi á þessum breytingum. Hún fór í orkumálin þegar hún var óörugg með svör:


Joe Biden stóð sig alveg prýðilega. Hann réðst á málefnin og McCain en ekki hana. Hann tengdi McCain sérstaklega við Bush í utanríkismálum og tókst það ágætlega. Palin fór rangt með nafn á hershöfðingja og hann leiðrétti hana ekki - hefur sennilega verið þjálfaður í að muna að þetta yrði dregið fram í umræðunni eftir á og að hann græddi ekkert á því að gera lítið úr henni. Palin gerði mikið úr því að hún skildi almenning vegna móðurhlutverks síns og Biden klökknaði þegar hann sagðist þekkja það sjálfur að vera einstætt foreldri og talaði um að hafa ekki vitað um tíma hvort sonur hans myndi lifa af bílslysið sem kona hans og dóttir dóu í. Spurning hvort það verður jafn mikið gert úr því og þegar Hillary sýndi tilfinningar í forvalinu!

Einkunnir frá CNN: Biden ABABA og Palin: BAABC. Nánar hér. Umfjöllun um kappræðurnar á NYT.
Setja á Facebook

8 comments:

Anonymous said...

Enn heldur þú áfram að gera lítið úr Palin, og nú með því að setja þessar skopmyndir inn. Er ekki komið nóg? Maður héldi að stjórnmálafræðingurinn í þér væri á hærra plani.

Anonymous said...

Palin teiknimyndin segir allt um þig.


LS.

Anonymous said...

LoL. Voðaleg viðkvæmni ofankommentara er þetta með Palin. Halda þeir að Tina Fey dragi úr vinsældum Palin? Þvert á móti.. athyglin og pressan sem Palin fær hjá kómedíunni er til góðs fyrir hana en ekki öfugt.

Ég sá mest af kappræðunum. Sammála því að Palin kom betur út en maður átti von á. Það er engum blöðum um það að fletta að kjörþokki hennar er óumdeildur. Og hún hefur fallegt bros. Hún nær til fólks -það er ekki spurning.

Málefnalega fannst mér Biden miklu trúverðugri. Og ég var ánægður með að Biden mundi af og til að brosa líka... :-)

Anonymous said...

Ég horfði líka á CNN (gerði það reyndar líka í fyrstu kappræðum McCain og Obama). Það er svo miklu skemmtilegra að hafa þessi viðbrögð áhorfenda með og svo eru umræðurnar á eftir líka svo skemmtilegar. Ég hafði engar væntingar til Palin fyrirfram og líklega vegna þess upplifði ég þessar kappræður þannig að finnast hún komast þokkalega vel frá þeim. En mér fannst Joe Biden koma svo miklu betur út úr þessu málefnanlega séð. Í nánast öllum hans svörum var miklu meira kjöt á beinunum og miklu skýrari sýn á málin sem var spurt um. Það var alltof mikið um klisjur hjá Söru Palin að mínu mati.
Sammála þér að þessar kappræður voru miklu hressari en þær fyrstu hjá forsetaframbjóðendunum enda mátti sjá það á línunum sem sýndu viðbrögð áhorfenda, þær fóru bæði hærra upp og lægra niður í nánast öllum spurningum.

Sara Benincasa said...

Thank you so much for linking to us, Silja! I wish I could read Icelandic!

Thrainn Kristinsson said...

Ég sá ekki Palin vera "mjög fína" eins og þú segir...

Joe Biden rúllaði þessu upp. Hreint ótrúleg frammistaða. Þekking hans reynsla, trúverðugleiki, örugg framkoma(authority) og sjarmi á móti Palin hefur ekkert fram að færa og þá meina ég ekkert. Það er sorglegt að þegar maður les fréttaskýringar í fjölmiðlum í USA um þessar kappræður þá virðist vera kominn upp svipuð staða og var í kosningunum 2004 - fréttaskýrendur reyna vera ekki of neikvæðir í stað þess að skýra frá staðreyndum.

Staðreyndin með Palin er að hún er vanhæf í hlutverk varaforseta -hvað þá forseti - og maskínan á bak við Rebúblikanaflokkinn er að reyna að svindla henni inn með þvi að búa til eins konar kvenkyns Reagan -

þetta gæti tekist ef hún gæti lært þetta að leika hlutverkið betur því eins og þú bendir á þá er munurinn á utanbókarþulum og því sem kemur frá henni sjálfri greinilegur

Silja Bára Ómarsdóttir said...

jhe og Þráinn - alveg sammála því að málefnalega var Biden mun sterkari. Ég skal samt alveg ábyrgjast það að fullt af fólki var svo fegið að Palin var ekki jafn veik og í viðtölunum sem hafa birst síðustu vikurnar að hún fældi kjósendur ekki frá. Það er hinsvegar nóg af umræðu um það hvernig hún stóð sig málefnalega til að þeir sem hafa áhuga á að meta það (en ekki sjarmann) geti fengið þær upplýsingar. Kosningarnar snúast því miður ekki (bara) um málefni heldur líka um kjörþokka.

Anna - sammála þér að það er skemmtilegt að sjá þessar mælingar á CNN og fannst líka sveiflurnar vera meiri núna en í fyrstu forsetakappræðunum. En heldurðu að það geti verið af því að nú var skipt niður eftir kyni? Síðast voru það demókratar, óháðir og repúblikanar.

Anonymous said...

Alveg örugglega hefur það haft áhrif að verið var að mæla viðbrögð kynjanna. Annars hefur verið gaman að fylgjast með þættinum "The Situation Room" á CNN (minnir að þátturinn heiti það). Þar voru mjög líflegar umræður bæði fyrst á eftir og svo daginn eftir þegar viðbrögð voru komin víðar að. Skemmtilegur panill sem búið er að setja upp í þessum þætti. Bíð spennt eftir næstu kappræðum.

Post a Comment