Landsfundur repúblikana er kominn í fullt gang nú þegar Gústaf hefur gengið yfir, og nú má segja að kosningabaráttan fari á fullt. Fjölmiðlar hér loga þó enn yfir stóra óléttumálinu, og skoðanir eru allt frá því að þetta skipti engu máli og eigi ekki að skipta máli yfir í að það sýni "hvern mann" Palin hafi að geyma að hún geti ekki "rekið" fjölskylduna betur og því sé henni ekki treystandi fyrir starfi varaforseta. Mér finnst líka alveg magnað að heyra hversu margir það eru sem rjúka upp til handa og fóta og tala um að af því að Palin á fimm börn, og þar af eitt fatlað, þá geti hún varla "haft tíma" til að sinna opinberum skyldum sínum án þess að það bitni á fjölskyldunni. Nokkuð góður punktur hjá Ross Douthat á Atlantic Monthly hér, þar sem hann bendir á að það að Palin er svo augljóslega móðir (og þ.a.l. kynvera) en ekki amma eða e.k. nunna, sé hluti þess hversu sterk og ruglingsleg viðbrögð fólks við henni eru. Douthat segir þó líka að vegna þess að þetta var (væntanlega) ekki ákveðið, þá gefi þungunin til að kynna að fjölskyldan hafi ekki alveg stjórn á hlutunum, og geti því lent í hlutverki raunveruleikasjónvarpsþáttar, frekar en fyrirmyndar fyrir vinnandi Bandaríkjamenn.
Það voru einmitt þessir vinnandi menn sem voru ástæðan fyrir því að ég fór á blogg Douthats, en í bílnum í dag hlustaði ég á umfjöllun um nýlega bók eftir hann, Grand New Party: How Republicans Can Win the Working Class and Save the American Dream, þar sem Douthat og meðhöfundur hans fjalla um það hvernig repúblikanar þurfa að heilla verkalýðinn í Bandaríkjunum til að sigra í kosningunum. Áhugaverðar pælingar, m.a. um að fella niður tekjuskatta, og sérstaklega það sem kallað er payroll tax á hina lægri launuðu, og aðrar skrýtnari pælingar, eins og að hvetja til mótunar "hefðbundinna fjölskyldna", sjá hér, hér, hér.
Gaman annars að fylgjast með ræðunum á fundi repúblikananna, þó ég hafi ekki verið viðstödd. Fred Thompson, sem sóttist eftir tilnefningu flokksins, hélt mikla ræðu þar sem hann lagði áherslu á hetjudáðir McCains, bæði meðan hann var fangi í Víetnam og á þingi eftir að hann kom heim. Ég sá hluta af ræðunni í sjónvarpi og hlustaði á afganginn og get ekki sagt annað en að hann hafi náð að kynna frambjóðandann sem heillandi hetju og frumkvöðul. Næstur á eftir honum var svo Joe Lieberman, sem var varaforsetaframbjóðandi Als Gores fyrir átta árum og demókrati í öldungadeildinni þar til fyrir tveimur árum, þegar hann fór fram sem óháður og náði kjöri. Hann hefur verið einn dyggasti stuðningsmaður McCains og var talinn mögulegt varaforsetaefni þar til fram á seinustu stundu. Lieberman reyndi mikið að höfða til demókrata og það er nokkuð víst að þetta var í fyrsta skipti sem klappað var fyrir Bill Clinton á landsfundi demókrata, því Lieberman hélt því fram að Obama stæðist ekki samanburðinn við hann. Repúblikanar eru greinilega að vinna upp tapið frá því í gær og ætla sér að fá sem mest út úr þeim þremur kvöldum sem þeir fá í beinni útsendingu. Arianna Huffington vill reyndar meina að flokkurinn sé í greinilegri krísu og bendir á að lítið sjáist af stóru nöfnunum á ráðstefnunni (og reyndar að kjör McCain/Palin myndi gera lítið fyrir flokkinn). Á morgun talar væntanlega Sarah Palin, og á fimmtudag tekur McCain við tilnefningu flokksins.
Mér sýnist á öllu að ég nái að vera viðstödd þá, passi reddaðist á síðustu stundu og ég er búin að breyta fluginu frá Los Angeles!
Hér er annars ræða Liebermans:
Ég ætlaði að tengja líka á ræðu Thompsons, en það er eitthvað klikk á síðu landsfundarins - kíkið endilega þangað ef það skyldi vera komin leiðrétting. Þema dagskrárinnar hjá flokknum var þjónusta við föðurlandið, og McCain er ekki slæmur frambjóðandi fyrir það þema eftir að hafa hafnað frelsi fram yfir aðra stríðsfanga sem höfðu verið lengur í haldi en hann. Thompson gerir þessari sögu mjög góð skil.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Það er ekki satt að McCain hafi hafnað frelsi. Annað kom fram í ævisögu Henry Kissinger, en það var hann sem hafnaði því að sonur hershöfðingja myndi fá að sleppa fyrr enn aðrir fangar af ótta við hversu slæmur pólitískur skandall það yrði.
MacCain var ekki í neinni stöðu til að semja um þetta augljóslega. Enda gísl, hefðu víetnamar ákveðið að frelsa hann, þá hefðu þeir bara gert það.
Kveðja Snæbjörn
Góðir pistlar annars.
Það eru vinstrimenn og fjölmiðlar með "vinstrislagsíðu" þar ytra sem hafa bókstaflega gengið berserksgang í að níða þessa konu í svaðið.
.
LS.
Post a Comment