Kom til Minneapolis upp úr hádegi í dag, var sótt á flugvöllinn og fór niður í bæ að sækja passann sem mér var reddað í gegnum smá krókaleiðir. Eftir stutt stopp í heimsókn fór ég niður í bæ og brá harkalega í brún þegar ég sá fjölda mótmælenda. Velti því reyndar fyrir mér eftir á hvort þetta hafi verið álíka fjöldi og var í Denver en bara allir á einum stað. Óeirðalögreglan var líka mun meira áberandi í kringum innganginn að Xcel en var að Pepsi í Denver, þó þar hafi hún verið út um allt í miðbænum. Inni tyllti ég mér á nokkur borð og spjallaði við fólk héðan og þaðan. Skemmtilegastir voru tveir herramenn, annar frá Texas og hinn frá Montana, sem voru uppnumdir yfir Palin og töluðu báðir um að dætur sínar hefðu horft á ræðu hennar í gærkvöldi með stórum vinahóp
Þar sem ég var nokkuð snemma á ferð gat ég valið mér sæti með fínu útsýni yfir sviðið og náði nær öllum ræðum kvöldsins. Takturinn var ansi rólegur fram eftir kvöldi, en það var skondin tilviljun að ríkisstjóri Utah lenti í því sama í kvöld og ríkisstjóri Colorado í síðustu viku, að halda það sem er sennilega ein mikilvægasta ræða ferils þeirra hingað til, og þeir voru báðir gjörsamlega raddlausir. Tilraunir hans til þess að koma hita í viðstadda féllu því í fremur grýttan jarðveg.
Einu sinni hélt ég að Bill Frist yrði forsetaframbjóðandi repúblikana. Hann var óneitanlega efnilegur fyrir nokkrum en hjálpi mér, hvað ræðan hans í kvöld var leiðinleg. Tom Ridge var þó a.m.k. hressandi.
Kynningin á Cindy McCain var alveg þrælfín, dró fram hluti sem ég reikna með að margir hafi ekki gert sér grein fyrir, eins og t.d. hvað hún hefur unnið mikið að hjálparstarfi á stríðshrjáðum svæðum. Þetta styrkir örugglega McCain enn frekar hvað varðar reynslu af utanríkismálum þegar kemur í lokahrinu kosningabaráttunnar. Cindy fékk svakalega góðar móttökur í salnum og talaði ekki á bak við pontu eins og aðrir ræðumenn og náði því mikilli nánd við áhorfendur. Eins og var hjá demókrötunum var mikið gert úr því að kynna bakgrunn hennar og fjölskyldu, til að sýna fram á það að þó hún sé í dag moldrík, þá hafi hún ekki komið úr efnaðri fjölskyldu frá upphafi. Mér fannst auðvitað sérstaklega skondið að þegar sagt var frá menntun hennar heyrðust mikil fagnaðarlæti héðan og þaðan úr salnum, en hún er menntuð í sama skóla og ég, University of Southern California í Los Angeles (fleiri frægir sem hafa lært þar eru John Wayne, Norman Schwarzkopf og Tom Selleck).
Þegar Cindy hafði lokið máli sínu var komið að aðalatriðinu. Kynningarmynd um John McCain kom á skjáinn og dró uppp áhrifamikla mynd af lífshlaupi hans. Þetta og kynningin á Cindy McCain (og svo myndin um Palin sem var víst ekki tími til að sýna í gær) leggja enn frekar áherslu á það að kosningarnar munu snúast um tengsl kjósenda við frambjóðendur, ekki (bara) málin sem þeir standa fyrir. Stuttu eftir að McCain hóf ræðu sína heyrðust hróp úr horninu fyrir ofan mig og einhverjir horfðu þangað. Þar stóð ungur maður með skilti sem á stóð: McCain Votes Against Vets. Í hvert skipti sem nokkur þögn komst á í salnum hrópaði hann eitthvað sem ég gat ekki greint. Hópur manna umkringdi hann fljótlega og svo birtist lögregla og fjarlægði hann. Aðrir hafa sennilega verið að því sama annars staðar í salnum, því af og til heyrðist eitthvað hróp og þá heyrðust mikil fagnaðarlæti og "USA, USA, USA" var öskrað í þó nokkurn tíma. Ég er ekki viss um að McCain hafi áttað sig á hvað var í gangi en spilaði samt ágætlega úr látunum í salnum svo hann gæti verið orðinn vanur þessu. Hann fór hægt af stað, en ræðan var vel upp byggð og þegar hann lauk máli sínu held ég að allir í salnum hafi verið orðnir eldheitir og mér þykir líklegt að sama megi segja um aðra sem fylgdust með. Nú er bara að bíða eftir næstu skoðanakönnunum og sjá hvaða áhrif ráðstefnan hefur á fylgið. Ég verð hissa ef það dregur ekki töluvert saman með frambjóðendunum núna, þó svo það sé nokkuð ljóst að demókratar muni vinna á í löggjafanum.
Slagorð kvöldsins: GI John & Superwoman.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comments:
Ég hlustaði á ræðu Cindy og John McCain á Sky og verð að segja að mér fannst Cindy ekki koma neitt sérstaklega vel fyrir. Hún virkaði ekki örugg á mig, varð fótaskortur á tungunni nokkuð mörgum sinnum meðan hún talaði. Og það sem hún sagði var uppfullt af ótrúlega væmnum "The American Dream" klisjum (sem er reyndar nánast regla hjá öllu þessu ræðufólki hvort sem það eru repúblikanar eða demókratar - en keyrði um þverbak hjá henni fannst mér).
Mér fannst Johan McCain aftur á móti standa sig vel utan það að þessi dýrkun á allt sem tengist hermönnum og þessar endalausu hetjusögur úr stríðum er hreinlega orðið hálf "pathetic" dæmi hjá repúblíkönum. Ég fékk nánast velgju þegar hver einkennisklæddi fyrrverandi hermaðurinn á fætur öðrum var sýndur um leið og ræðumennirnir kepptust við að upphefja störf þeirra og lýsa hetjudáðum.
Post a Comment