5.9.08

fóstureyðingar í Alaska og ættleiðingar í Arkansas

Nú fer aðeins að hægjast um hérna í pólitíkinni, a.m.k. hvað varðar sjónvarpsefni og sviðssetningu. Og þar sem ég "þarf" ekki lengur að sitja límd yfir ræðunum þá eru hérna tvö málefni sem mér finnst athyglisverð og hafa ekki fengið sérlega mikla umfjöllun í kringum ráðstefnur stjórnmálaflokkanna.

Val McCains á Palin hefur, eins og allir vita, verið rætt og krufið fram og til baka. Með því tókst honum að fanga athygli fjölmiðla og þó ég hafi ekki verið hrifin efnislega af ræðu hennar, frekar en að ég sé hrifin af þeim málefnum sem hún setur fram, þá hlýtur að viðurkennast að konan kann að koma fram, sérstaklega í ljósi þess hve litla reynslu hún hefur af því að standa frammi fyrir jafn stórum áheyrendahópi og hún gerði á miðvikudag. Palin byrjaði á því á föstudag að viðurkenna árangur Ferraro og Clinton, og vísaði í 18 milljón sprungurnar sem Hillary setti í glerþakið. Það sem þessar konur og Palin vilja gera í stjórnmálum er þó gerólíkt. Hlutfall indjána og eskimóa í Alaska er mun hærra en annars staðar í Bandaríkjunum. Einni af hverri þremur konum í þeim hópi er nauðgað á lífsleiðinni og í 25% tilfella leiðir nauðgunin af sér þungun. Þessar konur hafa verri aðgang að læknisþjónustu og nær engan að fóstureyðingum og ríkisstjórnin í Alaska, sem Palin hefur leitt, hefur ekkert gert til að bæta úr þessu. Áhugaverður pistill hér um þessar konur í Alaska, með tengingu á lengri grein. Dómarar sem ríkisstjórn McCain og Palin myndu skipa í hæstarétt Bandaríkjanna væru líklegir til að ganga enn lengra og snúa við Roe v. Wade, dómnum sem gerði fóstureyðingar löglegar í Bandaríkjunum. Það verða sennilega þrír dómarar skipaðir í hæstarétt á næstu árum svo þetta er hápólitískt mál í kosningunum. Og svona í framhaldi af því að Cindy McCain talaði svo fallega um Palin sem "gun-toting mother of five", þá er hér texti sem ég rakst á í gær á barmmerki.



Hitt málið sem ég bíð eftir að sjá hvernig verður til lykta leitt er kosning um rétt fólks utan hjónabands til að ættleiða, en tillaga þess efnis verður á kjörseðlinum í Arkansas í haust. Þó svo tillagan (sem yrði að lögum í ríkinu ef samþykkt í kosningum) banni öllum sem ekki eru í hjónabandi að ættleiða, þá er ákveðinn hópur sem á þess ekki kost að ganga í hjónaband, og það eru samkynhneigðir. Þarna er verið að leika sama leikinn og í Kansas, þar sem hjónaband samkynhneigðra var sett á kjörseðilinn til að draga íhaldssama kristna kjósendur á kjörstað, með þá hugmynd að leiðarljósi að þeir myndu þá einnig kjósa frambjóðanda repúblikana til forseta. Það er vel þess virði að fylgjast með þessum ballot initiatives í kosningunum til að sjá hvaða markhópum flokkarnir einbeita sér að, því þetta er fólkið sem getur ákveðið niðurstöður kosninganna.

Um leið og verið er að vinna gegn réttindum samkynhneigðra til að stofna fjölskyldur fá þó Log Cabin repúblikanar einn helsta ráðgjafa McCains í heimsókn og eru í fyrsta skipti viðurkenndur hópur á landsfundinum.


Svona rétt í lokin, þá mæli ég með leiðara NY Times í dag, og myndrænni framsetningu sama dagblaðs á helstu áherslum flokkanna í lykilræðum á landsfundunum (smellið á til að stækka). Það er ljóst þarna að repúblikanar standa við það að kosningabaráttan snúist um persónuleika/skapgerð, því þeir nefna character 17 sinnum en demókratar aðeins þrisvar. Sumt er þó sennilega frekar spurning um áherslumun en efnis, t.d. er economy oftar nefnt hjá demókrötum en business oftar hjá repúblikönum.
Setja á Facebook

2 comments:

Þrymur Sveinsson said...

Heil og sæl Silja Bára.

Athyglisverður pistill sem endranær hjá þér.
Leitt að sjá hvernig þeir ætla sér að stappa minnihlutahóp í svaðið.
Og nota til þess ódýr trix.

Þrymur Sveinsson.

Anonymous said...

Kosningaþátttaka í USA er manni alltaf jafn mikið undrunarefni. Það eru eitthvað mismunandi reglur milli ríkja/fylkja um hvernig staðið er að því að fólk skrái sig á kjörskrá, er það ekki? Sömuleiðis skilst manni að það sé ekki sama fjárhæð, sem fólk þarf að greiða fyrir að skrá sig á kjörskrá. En þetta fyrirkomulag leiðir hugann að því hverskonar misrétti felst í því að það sé ekki hlutverk hins opinbera að fylgjast með hverjir séu á kjörskrá, heldur kjósenda sjálfra, hvers og eins og þeir þurfi að greiða kostnaðinn úr eigin vasa. Það þótti ástæða til að fella það niður á sínum tíma hér á landi, að fólk þyrfti að eiga tilteknar eignir og hafa tiltekna þjóðfélagsstöðu til að mega kjósa. Ertu nokkuð til í að uppfræða okkur um þessi kjörskrármál í USA, Silja Bára?

Post a Comment