24.9.08

kappræður - á að fresta?

John McCain setti kosningabaráttuna aldeilis á hliðina í kvöld þegar hann lýsti því yfir að herferð hans yrði fryst og hann ætlaði til Washington að taka þátt í umræðum um björgunaraðgerðir stjórnvalda. Það sem meira er, hann fer fram á að Obama geri slíkt hið sama og að kappræðum þeirra, sem eiga að fara fram á föstudag, verði frestað. Á CNN er sagt að McCain ætli ekki að taka þátt í kappræðunum yfir höfuð nema 700 milljarða dollara aðgerðin hafi verið samþykkt. McCain fer einnig fram á að Obama geri slíkt hið sama, og þar til hann samþykkir á ekki að setja fleiri auglýsingar frá McCain í loftið. Viðbrögðin eru fyrirsjáanleg, Obama segir að nú sem aldrei fyrr sé þörf á að forsetaframbjóðendurnir ræði málin fyrir framan almenning og að þeir geti báðir komist með einkaflugvélum frá Washington til Mississippi á stuttum tíma. Obama segir einnig að hann hafi skilið McCain þannig að hann væri að velta þessu fyrir sér, ekki að hann hefði tekið ákvörðun um málið þegar þeir ræddu saman í dag. Harry Reid, oddviti demókrata í öldungadeildinni, biður McCain vinsamlegast að halda sig fjarri Washington, það sé óþarfi að blanda forsetapólitík í þetta erfiða mál.

En um kappræðurnar: Upphaflega áttu fyrstu kappræðurnar að vera um efnahagsmál, aðrar í borgarafundarstíl, og þær þriðju um utanríkismál. Framboð bæði McCains og Obama fóru fram á það að efni fyrstu og þriðju umræðnanna yrði skipt, og að utanríkismál yrðu tekin fyrir fyrst. McCain taldi sig koma betur út þar, þar sem hann er með gífurlega reynslu á þessu sviði og myndi því njóta góðs af því að taka þetta mál fyrir fyrst. Sérstaklega gæti hann hagnast á því að minna á dvöl sína sem stríðsfangi í Víetnam, eins og honum tókst að gera fyrir um ári síðan, sbr. hér. En einhver er ástæðan fyrir því að framboð Obama vildi tala um utanríkismálin fyrst. Í kappræðunum 2004 er almennt talið að Kerry hafi staðið sig betur en Bush, en Bush skánaði eftir því sem á leið svo það var hægt að túlka batnandi frammistöðu hans sem framfarir og jafnvel sigur. Það er viss veikleiki hjá Obama hve íhugull og hlutlaus hann reynir oft að vera, frekar en að sýna tilfinningar sem fólk tengir við í umræðunum. Frammistaða hans gæti orðið betri eftir því sem á líður, þannig að léleg frammistaða í fyrstu kappræðunum myndi fyrnast með betri frammistöðu í þeim seinni. Hann stendur sig eflaust betur í efnahagsumræðunni, og ef hún kemur í lokin, þá skilur hann kjósendur eftir með jákvæða tilfinningu gagnvart sér. Ég held því að þetta sé jákvæð lending fyrir Obama, eins og þessi höfundur hér. Ætli McCain hafi ekki áttað sig á því og sé að reyna að krafsa í bakkann með þessu útspili í dag? Og ætli demókratarnir komi honum á óvart með því að samþykkja pakkann? Ég bíð spennt eftir ávarpi Bush í kvöld.

Og í lokin: Ef af kappræðunum verður, þá er hér bráðnauðsynlegt hjálpartæki til að komast í gegnum þær, bingóspjald frá Mother Jones. Maður strikar yfir kassa þegar tiltekin orð koma fyrir, eins og "stríðsfangi", "friðþæging", "breytingar", "Petraeus" og "Þjóðvarðliðið í Alaska".
Setja á Facebook

7 comments:

Anonymous said...

Er hægt að fresta kappræðum si svona? Við hvað er McCain hræddur.

Anonymous said...

Ohh Silja, þú ert svo hlutlaus í þessum skrifum þínum..




LS.

Unknown said...

Ef af kappræðunum verður þá væri gaman að fá nánari upplýsingar um hvenær þær verða skv. íslenskum tíma og hvar þær verða sýndar. Geta t.d. þeir sem eru með CNN séð þessar kappræður?

Silja Bára Ómarsdóttir said...

JHE - McCain ætti ekki að vera hræddur við kappræðurnar, hann er mun öruggari í þeim en Obama og nær miklu betri skotum á mótherjann. Margir eru þó á því að það hafi verið mistök hjá honum að fara fram á það að taka utanríkismálin fyrir fyrst, en það var ákveðið rétt áður en allt hrundi á Wall Street. En mæti McCain ekki í kappræðurnar, þá verður augljóslega ekki af þeim.

LS - það er ekkert til sem heitir hlutleysi!

Ingibjörg: Kappræðurnar eru kl. 21 á austurstrandatíma, þ.e. klukkan tvö aðfaranótt laugardags hjá okkur. Þær verða sýndar á CNN og BBC World svo ef þú ert með e-n alþjóðlegan fréttapakka ættirðu að geta horft á þær.

Anonymous said...

Það virðist vera markmið McCain að halda sér sem lengst frá málefnalegum umræðum eins og sést með Söruh Palin og hvernig hún hefur forðst fjölmiðla eins og heitan eldinn. Í staðinn hefur McCain ákveðið að keyra á óheiðalegustu auglýsingaherferð í manna minnum.

egillm said...

Þetta viðtal við Palin er algjörlega priceless:

http://www.huffingtonpost.com/2008/09/25/palin-talks-russia-with-k_n_129318.html

kókó said...

Afhverju ættu þessi skrif að vera hlutlaus? Ekki eins og SBÓ sé fréttamaður á ríkisfjölmiðli...
Ég hélt að tilgangurinn með bloggi væri að koma skoðunum á framfæri en ekki "hlutlausri" upptalningu!

Post a Comment