(mikið ofboðslega er þetta ljótt orð)
Ég var að rekast á áhugaverða spurningu í athugasemd hér að neðan, um það hvernig skráningu kjósenda væri háttað í Bandaríkjunum. Nú er rétt að minna á að í Bandaríkjunum hagar hvert ríki málum eftir sínu höfði þó til séu kosningalög á landsvísu. En þetta er áhugavert fyrirbæri, fyrir okkur sem erum vön því að kennitalan dugi til að bera kennsl á okkur, hvort sem það er á myndbandaleigu (þetta fer að verða úrelt dæmi), banka eða í flísabúð. Í Bandaríkjunum eru engin formleg skilríki til og hvað þá að gefa megi út einhverja kennitölu sem hægt er að nota til að bera kennsl á einstakling. Social Security númerið gerir auðvitað sama gagn að vissu leyti, en þar sem það má ekki nota það sem auðkenni þá getur ríkið ekki notað það til að fylgjast með búsetu kjósenda. Svo kjósendur þurfa sjálfir að tryggja það að þeir séu á kjörskrá í sínum heimabæ/ríki og ríkin fara mismunandi leiðir til að fá fólk á kjörskrá. Sértu ekki á kjörskrá þar sem þú heldur geturðu oftast kosið með fyrirvara um að atkvæðið teljist gilt, en þá er auðvitað ekki tryggt að atkvæðið telji. Það borgar sig því fyrir fólk að hafa þessa hluti á hreinu. Tíðir flutningar, það að vera ekki skráður notandi rafmagns eða síma, að vera ekki með fasta vinnu, allt getur þetta gert skráninguna flóknari þar sem þetta eru leiðir til að staðfesta búsetu og það er grunnurinn að því að komast á kjörskrá.
Fram til 1993-4 var mun meiri fyrirhöfn að komast á kjörskrá. Það ár voru samþykkt lög sem eru gjarnan kölluð Motor Voter. Í þessu felst að í hvert skipti sem þú sækir um ökuskírteini eða breytir heimilisfangi á ökuskírteini er kassi á forminu sem hægt er að haka við til að komast á kjörskrá. Þetta var mikið framfaraskref hvað varðaði aðgengi að skráningu; talið er að milli 1994 og 1998 hafi skráðum kjósendum fjölgað um 20%. Lögin voru sett þar sem þingið taldi að það væri skylda ríkisins að hvetja til þess að borgarar nýttu kosningarétt sinn og að gildandi lög gætu mismunað ólíkum hópum, sérstaklega minnihlutahópum, í samfélaginu. Þetta virkaði sumsé að því leyti að skráningum fjölgaði. Hins vegar er deilt um það hvort þetta hafi skilað aukinni kosningaþátttöku. Við þekkjum öll umræðuna um það hversu léleg kosningaþátttaka er í Bandaríkjunum, en þó má benda á að yfirleitt er talað um kosningaþátttöku út frá heildarfjölda kosningabærra einstaklinga, ekki út frá fjölda skráðra kjósenda.
Annað markmið laganna var að tryggja gegnsæi kosningaferlisins og gera kosningaskrár betri. Þetta er ekki víst að hafi tekist, þar sem því fylgir mikill kostnaður að staðfesta að einstaklingur hafi flust úr kjördæmi láti hann ekki vita af því sjálfur. Þá er talið að líkurnar á kosningasvindli hafi aukist og það jafnvel aukist í framkvæmd, því í lögunum er kjósendum einnig gert kleift að skrá sig í gegnum póst og þurfa því ekki að mæta sjálfir til að skrá sig.
Skráning kjósenda er eitt helsta baráttutæki þrýstihópa, sem stilla sér upp við kjörbúðir, á skólalóðum, íþróttaleikjum og tónleikum, kynna ákveðið baráttumál og fá fólk til að skrá sig á kjörskrá. Barack Obama er sérhæfður í þessari baráttuaðferð, hér er skemmtileg grein úr Chicago Magazine frá 1993, þar sem fjallað er um áhrifin sem hann hafðí á kosningarnar 1992. Obama er spurður í lokin hvort hann hyggi sjálfur á framboð, en gefur ekkert út á það. Framboð Obama hefur nýtt þetta tæki til hins ítrasta, og er það í fyrsta skipti sem framboðið sjálft vinnur í skráningum skv. þessari grein: Í Virginíu setti framboðið sér það markmið að skrá 150.000 nýja kjósendur í sumar og fram í október. Í ágústlok höfðu 103.500 nýir kjósendur skráð sig í gegnum framboðið. Virginía skráir ekki kjósendur í flokka eins og gert er víða annars staðar, svo það er óvíst að allt þetta fólk kjósi Obama þegar til kemur (formúlan reiknar með að fyrir 150.000 kjósendur fái framboðið 60.000 atkvæði) (hér má skoða skráningarferlið í Virginíu). Þetta þrátt fyrir að misvísandi skilaboð hafi verið send út til námsmanna með lögheimili í öðrum ríkjum, m.a. um að foreldrar þeirra gætu ekki fengið skattaafslátt út á þá lengur ef þeir skráðu sig í öðru ríki og þeir gætu misst aðgang að sjúkratryggingum foreldra sinna. Samt eru nýir kjósendur að bætast á kjörskrá í miklum fjölda.
Það er ekki bara í Virginíu sem kjósendum fjölgar; í El Paso Texas er 25% fjölgun á skráning og svipaða sögu er að segja á mörgum öðrum stöðum, t.d. í Norður-Karólínu og í Georgíu stefna demókratar á að skrá hálfa milljón nýrra kjósenda og keppa um atkvæði ríkisins, sem hefur kosið repúblikana í forsetakosningum sl. 16 ár. Það virðist vera sama tilhneiging alls staðar, demókrötum fjölgar meira en repúblikönum. Á landsvísu hafa tvær milljónir kjósenda bæst í hóp skráðra demókrata á árinu. Repúblikanar hafa misst 344.000 skráða kjósendur á sama tíma. Nýskráningarnar eru greinilega tæki sem Obama framboðið hefur trú á og árangurinn virðist ekki láta á sér standa. Í nóvember reynir svo á hvort þessir nýskráðu kjósendur skila sér á kjörstað, þó ekki sé nema í því hlutfalli sem þarf til að skila sigri.
3 comments:
Takk fyrir, Silja Bára, þetta var gríðarlega fróðleg grein. Það var víst undirritaður sem bar fram þessa fyrirspurn til þín og þakka því sérstaklega fyrir greinargott svar. Það vekur sérstaka athygli Íslendingsins, að það er beinlínis óleyfilegt að koma á skráningartæki eins og kennitölunni okkar hér, í þágu persónuverndar. Athyglisvert í meira lagi.
Vonandi að heimturnar verði góðar!
Kjörskrármál. Er ekki bara málið að stytta það... Kjörmál.. :-).
En takk fyrir góða grein. Hef saknað freedomfries óumræðilega.. en greinarnar þínar slá hressilega á söknuðinn... :-).
Post a Comment