20.9.08

á hvaða ríki veltur niðurstaðan?

Eitt skemmtilegasta atriði sem ég man eftir úr kosningum er þegar Tim Russert heitinn teiknaði niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2000 í staðinn fyrir að treysta á tölvuútreikningana. Niðurstaðan var einföld, Flórída, Flórída, Flórída. Niðurstaða kosninganna myndi ráðast þar. Þetta var reyndar ekki fyrr en á kosninganótt, en í gær birtust tvær greinar á RealClearPolitcs, sem halda því fram að Colorado annars vegar, og Michigan hins vegar, séu ríkin sem ákvarði hvor frambjóðandinn vinnur í kosningunum í nóvember.

Hér er bent á að kreppan hefur verið þyngri fyrir íbúa Michigan en aðra hingað til, atvinnuleysi í ríkinu er 9% og fólk er orðið langþreytt á loforðum sem ekki standast. Vandinn fyrir Obama er að ríkisstjórinn (Jennifer Granholm) er demókrati og honum er kennt um. Vandinn fyrir McCain er að forsetinn er repúblikani, og honum er kennt um. Obama á von á góðum stuðningi í Detroit, þar sem svartir eru stór hluti kjósenda. Borgarstjórinn þar, Kwame Kilpatrick sagði hins vegar af sér á fimmtudag í kjölfar hneykslis (mætti m.a. ekki á landsfundinn út af því) og repúblikanar eru duglegir að nýta sér það. Þeir benda líka á að Granholm er útskrifuð úr Harvard - eins og Obama - og segja að ef kjósendur séu ánægðir með hana í Michigan, þá muni þeir fagna Obama í forsetastólnum. Þá eru íhaldssamir kristnir kjósendur fjölmennir í vesturhluta ríkisins og þeir styðja McCain-Palin ákaft. Demókrötum gengur illa að vinna á hjá þessum hóp kjósenda, eins og lesa má um hér, en núverandi efnahagsástand gæti hjálpað.

Hér er því hins vegar haldið fram að Colorado geti verið lykillinn að sigri fyrir Obama. Colorado hefur kosið repúblikana í 9 af 10 síðustu forsetakosningum. Ef John McCain nær að halda ríkinu má reikna með að hann haldi öllum hinum ríkjunum sem Bush fékk - nema kannski New Hampshire. Fái Obama New Hampshire og öll ríkin sem Gore sigraði í verður niðurstaðan að McCain fær 274 kjörmenn og Obama 264. Colorado er með 9 kjörmenn - ynni Obama þar fengi hann 273 og McCain 265. Þarna er þó reiknað með því t.d. að Minnesota kjósi demókrata, en það er nú talið geta farið í báðar áttir og CNN hefur m.a.s. spáð að það kjósi repúblikana. Lýðfræðilegar breytingar í Colorado gætu líka endurspeglað breytingar víðar í Bandaríkjunum.

Ókosturinn fyrir okkur hérna heima eru auðvitað að þessi ríki eru á Central og Mountain tímabeltunum, svo það þarf að bíða lengur eftir niðurstöðum úr þeim. Dugar sumsé ekki að vaka bara eftir þessu og treysta því að maður viti hvernig fer. Allavegana, nóg að skoða næstu fimm vikurnar. Ég minni þó á að við getum fengið niðurstöður kosninganna 1. nóvember, með því að athuga hvaða grímur seljast best fyrir hrekkjavökuna, en frá því 1980 hafa fleiri grímur selst með þeim forsetaframbjóðanda sem sigrar í kosningunum nokkrum dögum seinna.

Hér er áhugaverð lesning um kynþætti og pólitík, þar sem fjallað er um Bradley-áhrifin (að fólk viðurkenni ekki kynþáttafordóma sem hafa áhrif á kosningahegðun) og það sem fæstir þora að nefna, að óákveðnir kjósendur séu með kynþáttafordóma sem koma í veg fyrir að þeir kjósi Obama. Skoðanakannanir standa tæpt í mörgum ríkjum og þar sem stór hluti er óákveðinn eru meiri líkur á að sá hópur snúist á sveif með McCain í lokin - þetta er þó erfitt að spá um þar sem það hefur aldrei verið raunhæfur möguleiki á að fulltrúi minnihlutahóps nái kjöri áður svo það eru engin fordæmi til að bera kannanirnar saman við.

Og í lokin: Sarah Palin mismælir sig og talar um Palin-McCain stjórnina sem er í vændum, frekar en McCain-Palin.
Setja á Facebook

5 comments:

Anonymous said...

Takk fyrir góða grein og stöðutékk.

Palin - McCain hafa þetta sennilega. Verði Bandaríkjamönnum að góðu. Þá munu afturhaldsöflin endanlega ná að menga Bandarískt samfélag svo mikið að þeir sjá ekki til sólar næstu 20 árin eða meira.

Ömurlegt til þess að hugsa að öflugasta lýðræðisríki heims skuli stjórnast af bókstafstrúarfólki og steinblindum kapitalistum sem hafa það sem markmið að gera hinu ríku ríkari og þá fátæku fátækari. Það eru Repúblikanir.

Anonymous said...

Takk fyrir góða pistla á bráðnauðsynlegu forsetakosningabloggi, Silja Bára. Hvað segirðu annars um þá skoðun mína að kalla eigi "state" "fylki" á íslensku en ekki ríki þar sem um er að ræða eitt (sambands)ríki en ekki ríkjabandalag?

Silja Bára Ómarsdóttir said...

JHE - ég er sjálf ansi svartsýn á þetta, en ætla að halda í vonina. Þessar efnahagshörmungar gætu gefið Obama smá forskot.

Gísli - ég lærði hérna heima að kalla ríkin í Bandaríkjunum fylki, en seinna að fylki/lén/amt hefði ekki löggjafarvald og því væri rétt að kalla ríkin í Bandaríkjunum ríki. Væri málvenjan enn ráðandi, að nota fylki, þá hefði ég haldið mig við það, en þar sem notkun orðsins er hverfandi þá lét ég undan þegar mér var bent á þetta.

egillm said...

Fyndin mynd: http://www.flickr.com/photos/25852041@N08/2871279135/sizes/o/

Anonymous said...

Takk fyrir vandaða og skemmtilega pistla.

Minnesota fer ekki að breyta um lit í þessum kosningum, þó svo forskot Obama sé orðið óþægilega lítið í augnablikinu. No way, no how, no McCain! Meira að segja á Al Franken orðið séns á að bola Norm Coleman út úr Senatinu...þetta reddast allt á lokasprettinum!

Svo segi ég bara eins og Howard Dean...then we take Colorado and Michican and Ohio and Virginia!!! ;-)

Post a Comment