21.9.08

verkefni næsta forseta

Skemmtilegum panel var að ljúka á CNN, þar sem safnað var saman þeim fimm fyrrverandi utanríkisráðherrum Bandaríkjanna sem eru á lífi (ég held ég hafi það rétt að það séu ekki fleiri): Henry Kissinger, James Baker, Warren Christopher, Madeleine Albright og Colin Powell. Mátulega blandaður hópur, einn blökkumaður og ein kona, en skemmtilegt samt að bæði Kissinger og Albright eru fædd í Evrópu og koma til Bandaríkjanna sem táningar; eitt af þeim einkennum sem mér finnst skemmtilegust við Bandaríkin, að það getur hver sem er náð á toppinn þar. Þau voru ótrúlega sammála um það að hvaða málum næsti Bandaríkjaforseti þyrfti að einbeita sér: Loka Guantanamo og taka forystu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Í klukkutíma þætti næst auðvitað ekki að fara djúpt í málin, en Christiane Amanpour og Frank Sesno héldu þeim að mestu leyti við efnið. Áhugavert að ekkert þeirra virðist taka mark á þeirri hugmynd að Georgía hafi verið að verja sig í ágúst síðastliðnum; það var skýrt í þeirra huga að Georgía hafði hleypt af fyrstu skotunum í þessum átökum. Íran var þeim ofarlega í huga og það var augljóst að nálgun Obama, að ræða við forystu ríkisins, var sú aðferð sem þeim fannst vænlegri til árangurs. Albright sagði "þú reynir að tala við ríki sem þú átt í útistöðum við", og Baker kinkaði kolli. Áhugaverður punktur sem kom fram, annars vegar frá Baker og hins vegar Warren, sennilega þeir tveir sem fæstir muna eftir í hópnum: Baker sagði að það væru færri einstaklingar í utanríkisþjónustu Bandaríkjanna í en á flugmóðurskipi; Warren að það væru fleiri lögfræðingar í Pentagon (varnarmálaráðuneytinu) en einstaklingar í utanríkisþjónustunni. Sel það ekki dýrar en ég keypti það, en skilaboðin virðast skýr: Bandaríkin þurfa að einbeita sér að samningum, ekki yfirráðum. Mjúkt vald er það sem koma skal.

Get ekki skrifað meira, það er að byrja upprifjun á kappræðum.
Setja á Facebook

1 comments:

Erlingur said...

Vandinn við mjúkt vald er að það er mjúkt. Sjáum t.d. hvernig ESB með sitt mjúka ofurvald hefur gengið að eiga við Írani og Rússa (ekkert) þannig að bjóða það sem alternative fyrir BNA er vonlaust mál - "walk softly and carry a big carrot" eins og sagt hefur verið. Eða eins og Robin Williams sagði um breskar (óvopnaðar) löggur, "Stop! or I'll say stop again!".

Loka gitmo er ágætt mál, en það er varla meginviðfangsefni næsta forseta.

Post a Comment