25.8.08

ráðstefnan hafin - græn og bleik

Jæja, þá er ég loksins komin á landsfundinn sjálfan. Byrjaði morguninn á því að hitta gamla vini sem ekki eru að taka þátt í fundinum og kom svo niður í borg rétt fyrir þrjú þegar fundurinn sjálfur var að hefjast. Landsfundarfulltrúar hafa hins vegar setið sveittir við frá því snemma í morgun, því hver nefnd fundar frá því sjö á morgnana og þar fá fulltrúarnir passa sem hleypa þeim inn á rétta staði. Pressan er með sambærilegt fyrirkomulag, sumir komast upp að höllinni, aðrir inn í hana og enn aðrir niður "á gólf" þar sem fulltrúarnir sitja og fylgjast með. Þetta er íþróttahöll sem var breytt fyrir fundinn og mér skilst að hátt í 5000 sæti hafi verið fjarlægð til að koma sviðinu fyrir - enda er það risastórt.

En ég gekk inn á öryggissvæðið í gegnum lítinn hóp mótmælenda og götusala sem hrópuðu hver ofan í annan. Einn sagði 50 milljónir barna hafa látið lífið að óþörfu í gegnum tíðina, og kenndi demókrötum um. Annar bauð Obama barmmerki til sölu. Allir með gjallarhorn til að koma sínum skilaboðum á framfæri en fáir stoppuðu til að hlusta. Þessir fá ekki að koma nema að steinsteypugirðingu sem búið er að setja upp í kringum alla höllina. Fyrir innan hana er svo vírgirðing og vopnaleit þar sem öll rafmagnstæki eru tekin upp og ræst. Þar fyrir innan er stemningin svo eins og á amerískum fótboltaleik, pylsur og bjór til sölu, en bannað að fara með neitt nema vatn niður á gólf. Fólk er uppáklætt í alls kyns búninga, með merki til stuðnings hinum þessum, Obama og Hillary mest áberandi. Nokkrir eru enn með Hillary for President í barminum en ég sá mun fleiri Hillary Supporter for Obama.

Ráðstefnan hófst kl. 15 í dag á fjallatíma. Mikið er lagt upp úr hlutverki kvenna á ráðstefnunni, eflaust að hluta til svo að stuðningsmenn Hillary kljúfi sig ekki frá flokknum og styðji McCain í kosningunum. Fundarstjórar eru fjórar konur, Nancy Pelosi, forseti neðri deildar þingsins, Kathleen Sebelius, ríkisstjóri í Kansas, Shirley Franklin, borgarstjóri í Atlanta og Leticia van de Putte, ríkisþingmaður í Texas. Þar fyrir utan voru það konur sem kynntu nokkur helstu áherslumál framboðs demókrata í haust og ráðstefnunnar. Meðal þessara áherslumála eru einmitt jafnréttismál, en demókratar hafa einsett sér að fjölga konum í áhrifastöðum eins og kom skýrt fram, sérstaklega í máli Judith McHale. Hefðbundnar áherslur á kynjamál í Bandaríkjunum snúast gjarnan um rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Það er ekki efst á baugi hér, heldur er meira fjallað um jöfn laun og jafna stöðu í átt við það sem heyrist heima. En það er ekki bara jafnrétti kynjanna sem er tekið á, því ráðstefnan er túlkuð á spænsku og táknmál. Jafnframt er allt efni sent beint út á netinu til að auka aðgengi almennings að stjórnmálum. Fundurinn á að merkja það að flokkurinn sé að ganga í gegnum breytingar, að hverfa frá hinu hefðbundna formi stjórnmálanna í opnara og lýðræðislegra form.

Ráðstefnan er ekki bara bleik, heldur líka græn. Gífurleg vinna hefur verið lögð í að draga úr umhverfisáhrifum af ráðstefnunni. Í Bandaríkjunum er mikið drukkið af vatni á flöskum svo með öllum miðum fylgdu vatnsflöskur sem fólk er beðið um að vera með á sér og fylla á. Til þess að stuðla að þessu fjárfesti Denver-borg síðan í vatnsbíl, sem fyllir á vagna, þangað sem fólk getur aftur sótt vatn. Hraðbrautin verður lokuð á fimmtudaginn og alla vikuna er fólk hvatt til að nota almenningssamgöngur eða eitthvert þeirra 1000 hjóla sem hægt er að fá lánuð víða um borg. Umhverfismál eru fólki hérna vestanmegin ofarlega í huga, sérstaklega kannski vatnsmálin, og með þessum áherslum er demókrataflokkurinn að sýna hve mikla áherslu hann leggur á að tryggja sér fylgi í þessum ríkjum.

Held ég láti þetta gott heita í bili - set inn aðra færslu eftir stóru ræðurnar í kvöld. Verð þó að segja að mér finnst rosalega kúl að hafa staðið í innan við fimm metra fjarlægð frá Nancy Pelosi, Anderson Cooper og will.i.am í dag (þetta er sérstaklega til að hrella nemendur mína sem eru heima að skrifa ritgerðir og vildu frekar vera hér - þið vitið hver þið eruð)!
Setja á Facebook

4 comments:

Anonymous said...

Þú ert almennt bara mjög kúl - en með Denver blogginu ertu massakúl, kveðja,

Brísfold

Anonymous said...

Já, og þið sem eruð núna öfundsjúk yfir að hafa ekki valið stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands - þá er það bara „sorrí“ að háskólakennarinn ykkar er ekki úti á Landsþingi Demókrata! ;-) [alltaf að nýta hvert tækifæri til að vekja hressandi ríg, en þið getið hinsvegar drifið ykkur hingað í aðaldeildina]

Kveðja frá MA-nemanum sem er að ljúka flottustu lokaritgerð sem sögur fara af :-))

Anonymous said...

Úúúú...fimm metra fjarlægð frá Silfurrefnum! Kúl :)

p.s. mikið er ég fegin að vera búin að þessu ritgerðarrugli...

Anonymous said...

Já, ég væri frekar til að vera með þér þarna en í ritgerðarstússi hér. Ætla að senda þér fyrstu kaflana fyrir helgi... loksins!!

En viltu gera mér þann greiða elskan að kaupa flott Obama-barmmerki fyrir mig?? Plíííííís....

-Guffi

Post a Comment