26.8.08

leyfið konunum að kjósa, þær geta ekki gert verr en karlarnir

Í dag eru 88 ár liðin frá því að konur í Bandaríkjunum fengu kosningarétt á landsvísu. Einum 27 árum áður fengu konur í Colorado hins vegar kosningarétt í ríkinu og alla tíð síðan hefur Colorado verið brautryðjandi segir vararíkisstjórinn Barbara O'Brien, að miklu leyti vegna þess hve virkar konur hafa verið í stjórnmálum hér. Hlutur kvenna í stjórnmálum í vesturríkjunum hefur lengi verið mikill og er gjarnan vísað til þess að Wyoming, þar sem konur fengu kosningarétt 1869, hafi sagst frekar myndu sleppa því að verða í ríki í Bandaríkjunum en að draga kosningarétt kvenna til baka eins og þingið fór fram á þegar ríkið gekk í sambandið árið 1890. En það var ekki fyrr en 26. ágúst 1920 sem Tennessee varð 36. ríkið til að staðfesta 19. viðbótargreinina við stjórnarskrá Bandaríkjanna og tryggja konum kosningarétt um allt landið. Ræða Hillary Clinton verður aðalatriðið í kvöld og að auki tala 8 hinna 10 kvennanna sem sitja í öldungadeildinni fyrir demókrata og tengja landsfundinn þannig við þennan sögulega viðburð. Þá talar í kvöld Lily Ledbetter, sem kærði Goodyear-dekkjaframleiðandann fyrir kynbundna mismunun í launum.

Gærdagurinn var ágætur, þó dagskráin hafi sennilega verið rólegri en hún verður næstu daga. Það fjölgaði jafnt og þétt í salnum eftir því sem á leið og mér skilst að um kl. 18 hafi röðin í gegnum vopnaleitina verið orðin nokkur hundruð metrar á lengd. Ég skaust aðeins út úr höllinni um hálfsjö til að komast í ferskt loft og hringja í vini mína því símasambandið niðri á gólfi var ekki mjög gott. Sem ég rambaði þarna um rakst ég á gamlan vin frá LA, en hann er forseti borgarstjórnar þar og ötull stuðningsmaður Obama. Hann sagði að sér liði eins og hann væri á ættarmóti, fólk sem hann þekkir á hverju strái.

Ræðurnar voru fínar - stemningin varð betri og betri og alveg magnað að sjá allt þetta fólk og fjölbreytileikann sem býr í bandarísku þjóðinni. Í sendinefndinni frá Arizona sá ég m.a. mann merktan skrifstofu forseta Navajo-þjóðarinnar og fjóra gamla indjána sem voru greinilega uppgjafahermenn. Í hvert sinn sem ræðumenn nefndu ríki var mikið klappað á svæði þess ríkis og hvað þá þegar ræðumenn á borð við Michelle Obama, sem er fædd og uppalin í Chicago, voru kynntir til sögunnar. Hægt er að hlusta á ræðuna hennar hér, en hún lagði mikið upp úr því að mýkja ímynd sína og sýna Bandaríkjamönnum að þau hjónin ættu mikið sameiginlegt með venjulegum kjósendum sem þurfa að láta enda ná saman um hver mánaðamót. Ræður Caroline og Teddy Kennedy voru auðvitað líka tilkomumiklar, en að öðrum ólöstuðum þá hreifst ég mest af ræðu Jesse Jackson jr., en hann er þingmaður fyrir Illinois og fjallaði um starf Obama í Chicago bæði á ríkisþinginu og áður. Jackson vísaði í ræðu Martins Luthers Kings sem ég vitnaði í hér að neðan, og sagði að þetta væri fyrsti stjórnmálafundurinn sem færi fram með fjallstindinn í augsýn (lesa ræðuna eða hlusta á hana hér).

Þema gærdagsins var "One Nation", en í dag er það "Renewing America's Promise" og áherslan verður á efnahagsmál og það hvernig hægt er að koma bandaríska hagkerfinu á réttan kjöl með því að styrkja millistéttina.

Var í sjónvarpsfréttum í gær og á Morgunvakt Rásar 1 í morgun.
Setja á Facebook

1 comments:

Anonymous said...

Fróðlegt og skemmtilegt að fylgjast með þér (og auðvitað Obama) í Denver.

Post a Comment