30.8.08

McCain og Palin hafa hist þrisvar (ef það)

Ég hef aðallega verið á flugvöllum og í flugvélum í dag, en fjölmiðlar loga hérna í Bandaríkjunum um val McCains á Sarah Palin sem ég fjallaði um hér að neðan. Ég sé ekki betur en að það sama eigi við heima. Var að lenda í Sacramento (og velti fyrir mér hver búi í hinu vel merkta stórhýsi ríkisstjórans) og hef loksins náð að kynna mér málin aðeins - og þakka fyrir nokkrar góðar athugasemdir við fyrri færslu. Svona sé ég þetta.

McCain þurfti að stela kastljósinu af Obama eins fljótt og hægt var. Það að ráðstefna repúblikana hefst strax eftir helgi hjálpar, en þá hefði Obama þó haft þrjá daga til að spila úr ræðunni í gær, sem fékk vægast sagt frábærar undirtektir í fjölmiðlum. Án þess að ég hafi nokkuð fyrir mér í þessu máli annað en tilfinningu (sem mótast af því að hafa búið í Bandaríkjunum í rúman áratug og fylgst með bandarískum stjórnmálum frá því Carter tapaði fyrir Reagan 1980 þegar ég var níu ára), þá held ég að þar til mjög nýlega hefði McCain valið Romney eða Lieberman með sér. Stóra húsamálið setti Romney sem valkost út af borðinu og Lieberman hefði aldrei fengið stuðning flokksins. Þegar það varð ljóst að Obama tæki Biden með sér sá McCain sér leik á borði. Stuðningsmenn Hillary voru margir hverjir ósáttir og hétu því að kjósa ekki demókrata. Þarna myndaðist "pottur" kjósenda sem hægt var að sækja úr. McCain velur því aðra þeirra tveggja kvenna sem höfðu verið nefndar af og til, og slær tvær flugur í einu höggi. Hann höfðar til kvenna sem vilja sjá konu í áhrifastöðu, sama hvaða málstað hún styður, og nær í hægri atkvæðin sem annars hefðu kannski sleppt því að fara á kjörstað og kjósa hann (þó það hafi breyst töluvert í vikunni). Hversu margar konur sem studdu Hillary myndu kjósa Palin, veit ég þó ekki, ekki frekar en ég sé hvernig konur sem studdu Hillary geta hugsað sér að styðja McCain. En þetta held ég að hafi verið stór þáttur í ákvörðuninni, fyrir utan það að Palin kemur frá Alaska og orkumálin eru ofarlega á dagskrá í kosningunum. Palin hyllti líka frammistöðu Hillary Clinton í ræðunni sinni í morgun og höfðar þannig til stuðningsmanna hennar. En samkvæmt CNN í kvöld hittust McCain og Palin einu sinni eða tvisvar áður en hann bauð henni að verða varaforsetaefni sitt, svo þau hittust í annað eða þriðja sinn þegar ákvörðunin var kynnt. Allt þetta tel ég að gefi til að kynna að þetta hafi verið ákvörðun sem var tekin á síðustu stundu, og sagan í þessu viðtali staðfestir þann grun. Sverrir segir eiginlega það sem segja þarf um þetta mál.

Hvort Palin nái að styrkja framboðið er þó algjörlega óljóst. Varaforsetaframbjóðendur hafa mjög sjaldan áhrif á niðurstöður kosninga, einhvers staðar heyrði ég að þeir breyttu kannsi niðurstöðum í heimaríkjum sínum, og þá um ca. hálft prósent. Hvorki Delaware né Alaska eru með sérstaklega marga kjörmenn, svo við ættum sennilega að hafa í huga að þessar kosningar snúast enn um val á milli Obama og McCain.


En eitt er það sem fer ósegjanlega í taugarnar a mér. Það er umræða um að Palin geti ekki verið hæf til starfans og að hún hljóti að hafa verið valin út af útlitinu (sjá teiknimyndina hér til hliðar og athugasemdir við 10 Things You Didn't Know About Sarah Palin. Hún hefur vissulega aðeins minni starfsreynslu í pólitík en Obama hefur sjálfur, hefur aðeins verið ríkisstjóri í fámennu ríki í tvö ár og þar áður bæjarstjóri í heimabæ sínum, Wasilla, þar sem búa um 8.000 manns, en hún hefur þó reynslu úr framkvæmdavaldinu, ekki bara löggjafanum svo það ætti að jafnast út. Ég viðurkenni það fúslega að ég vil sjá fleiri konur í áhrifastöðum. Ég vil bara að þær séu hæfar (og helst á sömu skoðun og ég þar sem máli skiptir) og það fer ferlega í taugarnar á mér að það sé strax byrjað að tala um hana sem bimbó. En það skiptir gífurlegu máli fyrir stelpur og ungar konur að sjá konur sem fyrirmyndir. Margaret Thatcher hafði mikil áhrif á mig og ekki er ég sammála henni um neitt svo ég viti. Sama held ég að megi segja um Palin, t.d. um umhverfismál, hjónabönd samkynhneigðra, fóstureyðingar (m.a.s. þegar þungun verður í kjölfar nauðgunar), og svo má lengi telja. Þó svo Palin komi ekki að stjórnmálum í gegnum Washington, þá myndi hún stuðla áfram að sömu stefnu í félagsmálum og Bush-stjórnin hefur unnið að síðustu átta árin.

En, ég endurtek það sem ég sagði áðan, ég held þetta hleypi fjöri í kosningarnar og ef repúblikönum tekst að viðhalda þeirri athygli sem þeir fengu í dag, þá mega demókratar passa sig. Hlutverk Hillary Clinton verður meira núna en hefði mátt vænta í gær, því það verður erfitt fyrir Biden að ganga hart að Palin án þess að líta illa út. McCain hefur vissulega sagt að reynsluleysi Obama hái honum, en Palin er ekki að bjóða sig fram í forsetaembættið. Það sem þetta þýðir er að kosningarnar núna verða sögulegar, kona verður varaforseti eða blökkumaður forseti Bandaríkjanna í fyrsta sinn. Nú fyrst er ég svekkt yfir að hafa ekki fengið passa á repúblikanaráðstefnuna.
Setja á Facebook

4 comments:

Anonymous said...

Er hún ekki einfaldlega hinn fullkomni varaforseti fyrir Mccain. Ég horfði á þegar hún var kynnt og svona í sjónvarpi þá kemur hún mjög vel fyrir (með reynslu). Þessi ræða hennar var bara nokkuð góð, hún fór greinilega nokkrum sinnum út fyrir handritið og gerði það vel. Mér fannst oft eins og John Mccain yrði svotlítið vandræðalegur þegar hún var að tala. Hún gæti lika einfaldega skyggt á hann, vegna framkomu sinnar (hún fersk) og vegna sinna mjög svo hægri sinnuðu skoðana. Hvernig mun ganga hjá þeim fer alveg eftir því hvaða sora blöðunum tekst að grafa upp um hana. John Maccain er 72 ára,hún getur orðið þarnæsti forseti USA!!

Anonymous said...

Þetta er fjári fín færsla hjá þér.
Ég sat á kaffihúsi í gær eftir hádegið hér í "Peoples Republic of Alexandria". Í tvígang heyrði ég konur á næstu borðum tala um valið á Palin og í bæði skiptin af miklum áhuga.
Konan mín kaus Hillary í prófkjörinu en var ekki sannfærð um eða yfirmáta hrifin af Obama. Valið á Palin fær hana til að skoða McCain í nýju ljósi.

Gummi Erlings said...
This comment has been removed by the author.
Unknown said...

Mér finnst þetta snjall leikur hjá McCain, alla vega við fyrstu sýn.

Það er ósanngjarnt að gagnrýna hana fyrir að vera fegurðardrottning og sumt af umfjölluninni sem ég hef séð um hana litast óneitanlega af kvenfyrirlitningu, svipað og gerðist með Hillary.

Nú er ég varla sammála Palin um neitt, en það breytir því ekki að mér finnst gleðilegt að sjá konu í forsetaslagnum eftir allt saman. Auðvitað vildi ég heldur hafa Hillary Clinton í þeim slag, en maður fær ekki allt.

Post a Comment