29.8.08

75.000 og 1

Þá er landsfundi demókrata lokið og Barack Obama hefur tekið við tilnefningunni, fyrstur blökkumanna til að leiða annan stærsta flokk Bandaríkjanna í forsetakosningum. Ég var komin á Invesco-leikvanginn ansi snemma í dag, til þess að taka upp innslag í Kastljósið á íslenskum kvöldmatartíma (bæti inn tengli seinna). Þurfti svo að fara út fyrir öryggissvæðið til að hitta vinkonu mína, því ég var með passa fyrir hana. Á þeim tveimur tímum eða svo sem ég var inni hafði röðin margfaldast og var orðin svo löng að fólk var látið fara út á þarnæstu stoppistöð og labba þaðan. Þrátt fyrir það vorum við komnar með fín sæti um tveimur tímum fyrir upphaf ræðudagskrárinnar, en í millitíðinni rölti ég um og heilsaði upp á gamla vini, en m.a. kom ein skólasystir mín úr BA náminu frá Kansas og með Chris vorum við orðin þrjú þaðan sem náðum að hittast og taka myndir sem verða að sjálfsögðu sendar í fréttabréf Lewis & Clark College.

Fyrstu ræðumenn kvöldsins voru aðallega frá Colorado, sem fékk þarna athygli og lof fyrir að standa vel að landsfundinum. Tónlistaratriðin voru m.a. Stevie Wonder og Sheryl Crow, og auðvitað will.i.am, sem flutti fyrsta Obama lagið, Yes We Can:


Ég notaði mér aðganginn að gólfinu þegar Gore talaði og rakst þar á Al Sharpton, Jesse Jackson, Charlie Rose og Jim Lehrer, auk Dianne Sawyer og Tom Brokaw. Þetta er í alvörunni eins og að vera á óskarsverðlaunaafhendingu fyrir stjórnmálafræðinga og fréttafíkla.

Nokkrir snilldartaktar úr ræðunni:
-Hífðu þig upp á skóreimunum, þó þú eigir ekki skó!
-Ég er ekki tilbúinn að vonast eftir 10% líkum á breytingum.
-Það er ekki eins og John McCain standi á sama. John McCain skilur þetta ekki.
-John McCain segist myndu elta Bin Laden að hliðum heljar, en hann neitar að fara í hellinn þar sem hann býr.

Obama svaraði í kvöld kalli allra þeirra sem hafa gagnrýnt hann fyrir orðagjálfur og lítið innihald, nú er að sjá hvernig McCain spilar úr ráðstefnu repúblikana í næstu viku.

Svona í lokin þá eru hérna nokkrar tölur um landsfundinn:

75.000 manns hlýddu á lokaávarp Baracks Obama
26.000 sjálfboðaliðar komu að ráðstefnunni
17.000 hótelherbergi voru bókuð fyrir landsfundargesti
15.000 fjölmiðlamenn voru á staðnum
5.000 sæti voru fjarlægð úr Pepsi Center til að reisa sviðið
4.440 fulltrúar voru staðfestir á fundinn
3.300 mílur ljósleiðara voru lagðar um Pepsi Center
503 sendinefndarfulltrúar komu frá Kaliforníu, en þar er stærsta sendinefndin
300 erlendir gestir komu í boði flokksins
232 starfsmenn landsfundarnefndar voru að störfum
134 lönd sendu fréttamenn
100 ár eru liðin frá því landsfundurinn var síðast í Denver
91 er aldur elsta fulltrúans
50 daga vinna fór í að breyta Pepsi Center úr íþróttahöll í landsfundarstað
22 tímar er það sem tók sendinefndina frá Guam að komast á staðinn
17 ára er yngsti fulltrúinn
13 fulltrúar koma frá Amerísku Samóa, en það er minnsta sendinefndin
4 dagar
1 frambjóðandi

Hér eru viðtöl á Morgunvaktinni í morgun og Kastljósi í gær (upp úr miðjum þætti)
Setja á Facebook

3 comments:

Anonymous said...

Hæ Silja
Er búin að fylgjast með blogginu þínu og hef haft gaman af.

Ég var að spá í einu, ferðu líka á flokksþing republikana? Verður Kastljósið þar og fréttirnar?
Ef fréttir og fræðimenn vilja láta taka sig alvarlega verða þeir að líta í allar áttir ekki satt - ekki hægt að vera bara grúppía fyrir Obama!

Skemmtu þér vel og takk fyrir mig.

Anonymous said...

Það er margt líkt með líkum...

Silja Bára Ómarsdóttir said...

Tinna - ég get því miður ekki farið á landsfund repúblikana, fékk ekki aðgang þar. Með fréttirnar, þá verðurðu að spyrja fjölmiðla að því.

Post a Comment