28.8.08

Obama og öryggismálin

Þema landsfundar demókrata í kvöld var "Securing America's Future", og ræðurnar snérust aðallega um það að skapa trúverðuga mynd af Barack Obama sem yfirmanni herafla Bandaríkjanna. Hverjum hermanninum á fætur öðrum var stillt upp, tveimur glæsilegum konum sem héldu frábærar ræður og fyrrverandi repúblikana sem er að fara að kjósa demókrata í fyrsta sinn á ævinni. Eins og í gær var hópi kvenna stillt upp saman, en Madeleine Albright var eina konan fyrir utan hermennina sem hélt lengri ræðu ein og sér.

Rétt fyrir sjö fóru sjálfboðaliðar að streyma inn í salinn með ameríska fána. Ungur þingmaður frá Suður-Flórída hélt stutta ræðu og slúttaði með því að kynna Bill Clinton inn á svið. Aðgangi að salnum var lokað rétt þegar þetta var að gerast og einungis landsfundarfulltrúar áttu að fá að fara inn. Einhver var þó utan við sig og hleypti mér inn í ganginn. Þegar ég var komin hálfa leiðina áttaði einhver sig á því að ég átti ekki að vera þarna, en ég þóttist bara ekkert heyra. Áður en varði var ég komin niður á gólf, beint fyrir aftan sendinefndina frá Illinois og beint fyrir framan Clinton meðan baráttulagið hans, Don't stop thinking about tomorrow hljómaði. Fánar sveifluðust um allan salinn og áhorfendur ætluðu aldrei að þagna. Eftir að reyna ítrekað að þagga niður í salnum hóf Clinton ræðu sína með því að segja "ég elska þetta, og takk fyrir". Þar á eftir upphófst mikil lofræða um Biden og Obama, og hann fylgdi fast í fótspor Hillary frá því kvöldið áður þegar hann hét sagðist myndu styðja Obama, og að allar þær 18 milljónir kjósenda sem kusu Hillary í forvalinu ættu að gera slíkt hið sama. Mikið var gert úr því að Clinton hefði viljað tala um efnahagsmál, frekar en öryggismál, en honum tókst listilega að flétta þessu tvennu saman, og minnti á það að Bandaríkin þyrftu fyrst að vera sterk heima fyrir til að vera sterk á alþjóðavettvangi. Með lokaorðunum tókst honum líka að minna á eigin arfleifð, þegar hann sagði að ef áheyrendur tryðu því að Bandaríkin ættu ávallt að vera staður sem héti von, þá þyrftu þeir að kjósa Barack Obama sem forseta.

Kerry hélt reyndar líka alveg þrælfína ræðu, hann gerði óspart grín að sjálfum sér þegar hann baunaði á McCain, sem hann sagði að þyrfti að klára kappræður við sjálfan sig, á milli frambjóðandans og þingmannsins, áður en hann færi í kappræður við Obama. Hann benti líka á ólíka nálgun frambjóðendanna tveggja til átaka og sagði McCain fastan í 20. öldinni en Obama vera leiðtoga fyrir 21. öldina, sem skildi að ólíkar ógnir, ekki bara sprengjur og stríð, verðskulduðu athygli.

Hjartnæmasta augnablik kvöldins held ég að hafi komið frá Beau Biden, sem kynnti föður sinn til sögunnar. Hann bað alla viðstadda að styðja pabba sinn í haust, þar sem hann þyrfti sjálfur að vera fjarverandi (hann hefur verið í þjóðvarðliðinu frá því 2003 og verður sendur til Írak í október). Biden hélt síðan þrumuræðu, þar sem hann réðst harkalega á McCain, sem hann kallaði afvegaleiddan vin sinn, mann sem hefði þjónað landinu lengi en skildi ekki hver stóru málin væru, þar á meðal hvernig ætti að enda stríðið í Írak. Þakið ætlaði þó fyrst að fjúka af húsinu þegar Obama gekk inn á sviðið.

Madeleine Albright er selebb dagsins, þetta var í fyrsta skipti í allri ferðinni sem ég hafði rænu á því að fá að smella mynd af mér með einhverjum sem ég hitti. Hún hélt líka flotta ræðu, þar sem hún minnti á það að þegar fjölskyldan hennar flúði frá Tékkóslóvakíu, þá flutti hún til Denver. Snemma beygist krókurinn, því Albright fékk verðlaun fyrir að muna nöfnin á öllum 51 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna þegar hún var í skóla hér. Aðildarríki S.þ. eru 192 í dag, engin smá breyting á stuttum tíma.

Önnur selebb sem voru á rölti voru Donna Brazile, Melissa Etheridge (sem spilaði fyrr um kvöldið), Jamie Fox, Angela Bassett, Taye Diggs og Laura Prepon. Svo náði ég að taka í höndina á Kweisi Mfume og Brian Schweitzer.
Setja á Facebook

3 comments:

Anonymous said...

Selebb?

Anonymous said...

Þú segir ekkert um þegar Barack var tilnefndur til kjörs frambjóðanda til forseta af Clinton sem var í sjálfusér stærsta stund dagsins, fyrsti African-American í kjöri til forseta. Það voru varla þurr augu í salnum, ætlar þú að segja mér að þú sért svona mikill rékerling að það hafi ekki hreyft við þér.

Anonymous said...

Gaman ad fylgjast med thinginu. Varst gód í Kastljósinu. Greinilega mikid fjör, læti og tilfinningahiti! :)
Kata

Post a Comment