Ég er að lesa Óvinafagnað Einars Kárasonar. Hef ætlað mér það óralengi og mundi loksins eftir að grípa hana með mér í flug. Ótrúlegt að hann hafi skrifað þessa bók fyrir áratug og að sagan gerist fyrir nokkrum öldum. Á fyrstu síðum bókarinnar má nefnilega lesa um útrásina og snilligáfu íslenskra braskara. Ég vona að Einar fyrirgefi mér að ég birti hérna orð sem hann leggur Þórði kakala í munn, en hann lýsir Snorra frænda sínum Sturlusyni í Noregi sem einum "af þessum undarlegu særoknu Íslendingum, sem kannski má hafa til gamans og auðvelt er að snuða í viðskiptum - menn hér vita nefnilega að Íslendingar vilja helst strá um sig peningum. Og ekki prútta eða jagast um verð, því það sé einungis háttur fátæklinga. Þannig a landar mínir eru látnir greiða allt á tvöföldu verði, og það gera þeir glaðir og uppbelgdir, - og á eftir hlæja hérlendir meðan þeir telja peningana."
Ég get ekki að því gert en mér finnst þessi frásögn óheyrilega lík lýsingum breskra kaupsýslumanna af hegðun Íslendinga á mörkuðum þarlendis á síðustu árum.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
0 comments:
Post a Comment