28.9.09

kynlíf og barneignir

Í dag er alþjóðlegi getnaðarvarnadagurinn, en Félag um kynlíf og barneignir stendur fyrir honum hér á landi. Frétt hér á Eyjunni í dag bendir á að konur spari við sig getnaðarvarnir í kreppunni (spurningin vaknar um það hvort karlar geri það líka, en henni er ósvarað).

Aðgangur að getnaðarvörnum og þar með geta til að ráða yfir eigin líkama var eitt stærsta skrefið í baráttu kvenna fyrir jafnri stöðu á við karla í samfélaginu. Í fjölmörgum ríkjum hafa konur ekki aðgang að getnaðarvörnum vegna valdaleysis í samfélaginu og vegna þess að þær skortir aðgang að fjármagni. Oft bætist svo við að karlar neita að nota smokka, þannig að konurnar smitast af kynsjúkdómum sem þær hafa svo ekki aðgang að læknisþjónustu til að losna við.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að við stöndum frammi fyrir því á Íslandi í dag að fólk geti ekki notað sér getnaðarvarnir. Það má jafnvel velta upp þeirri spurningu hvort verðlagið sé jafn hátt og raun ber vitni vegna þess að þetta eru hlutir sem konur hugsa um og karlarnir sem flestir taka ákvarðanir um niðurgreiðslur hafa sjaldan eða aldrei þurft að hugsa um?
Setja á Facebook