11.3.09

ógnvekjandi orð og flýtistjórnmál

Ronald Reagan sagði einhvern tímann að níu ógnvænlegustu orðin í enskri tungu væru: "I'm from the government, and I'm here to help" (ég er frá ríkisstjórninni og ég ætla að hjálpa til). Mér hefur stundum orðið hugsað til þessara orða síðustu mánuðina. Þessi hugsun hefur haft mikil áhrif síðustu áratugina - allt frá því að Reagan tók við völdum í Bandaríkjunum og áhrifa hugmyndafræði hans um afskiptaleysi ríkisins fór að gæta víða um heim. Nú erum við að súpa seyðið af því að hafa aflétt reglum um eftirlit með fjármálastofnunum þó ekki sé því einu um að kenna.

Beggja vegna Atlantsála er nú vöknuð umræða um það að herða þurfi á reglusetningu og eftirliti með fjármálastofnunum. Willem Buiter, eiginmaður Anne Siebert sem á sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, skrifaði grein á VoxEU á mánudag þar sem hann segir að það verði að setja reglur um eftirlit með fjármálamörkuðum meðan færi gefst. Sú hugmynd að markaðir geti stjórnað eftirliti með sér sjálfir sé hreinlega grunsamleg. Hann bætir við að vissulega væri betra að þurfa ekki að gera þetta í flýti, en nú sé einstakt tækifæri vegna þess að fjármálamarkaðir séu í rúst og geti ekki barist gegn reglusetningu eins og þeir gera almennt.* Því sé betra að setja jafnvel of stífar reglur núna og þurfa að slaka á þeim síðar en að taka áhættuna á því að búa áfram við of veikar reglur. Grundvöllur skilvirks eftirlits er aðgangur að opinberum upplýsingum - og það krefst endurskoðunar á alþjóðareglum, sérstaklega stoð I í Basel II. Buiter bendir á einn tiltekinn galla - sem gerir það sennilega að verkum að aðild að ESB hefði ekki komið í veg fyrir hrunið hér - og það er að þrátt fyrir sameiginlegar reglur og sameiginlegan seðlabanka 16 aðildarríkja evrusvæðisins, þá er allt eftirlit hjá ríkjunum. Þetta hlýtur að þýða að það verður að leggja peninga í eftirlitið - og þá hefði ég haldið að ríkið yrði að skipta sér af. Buiter mælir með því að þverþjóðlegt eftirlitskerfi verði sett á fót.

Önnur grein á svipuðum nótum er í New Republic tímaritinu í Bandaríkjunum. Hún hefst á tilvísun til aðgerða Franklins Roosevelt sem "ráku víxlarana úr musterunum" (rétt eins og Jesús gerði í Biblíunni) og fjallar einkum um það að um leið og dregið var úr reglum í kringum fjármálastarfsemi, þá fann fjármálageirinn alls kyns leiðir til að draga úr gegnsæi. Vogunarsjóðir og aðrir hlutir sem ég kann ekki að nefna féllu utan reglusetningarvalds ríkja og það telur McCraw að hafi leitt til núverandi ástands. Hann telur andstöðuna við reglusetningu verða umtalsverða, því Wall Street sé enn í afneitun varðandi eigin stöðu og hlutverk. Báðir stjórnmálaflokkar í Bandaríkjunum hafa hagsmuna að gæta.

Þessi umræða vakti mig til umhugsunar um núverandi ástand hér heima - sérstaklega þetta með að betra væri að þurfa ekki að taka þessar ákvarðanir í flýti,* en nú sé þó lag sem verði að nýta (þingmenn virðast hættir að tala þegar ég er að skrifa þetta). Ég hefði viljað að þverpólitísk sátt næðist um breytingar á stjórnarskránni - en ég tel þó að henni verði að breyta. Núverandi stjórnarskrá þýðir að það gerist ekki nema rétt fyrir kosningar því næsta þing verður að samþykkja breytingar líka til að þær taki gildi. Breytingar á stjórnarskrá undir þessum kringumstæðum ættu að vera eins takmarkaðar og hægt er - en rétt eins og reynslan af hruninu sýnir að ekki er hægt að treysta fjármálafyrirtækjum til að hafa eftirlit með sjálfum sér, þá hlýtur að þurfa annan aðila til að setja reglur um starfsemi stjórnmálamanna. Og ef stjórnarandstaðan er í raun andsnúin því að hafa stjórnlagaþing, þá ætti hún að keyra sína kosningabaráttu á andstöðu við það og fella þessa breytingu á stjórnarskránni á næsta löggjafarþingi fái hún til þess stuðning kjósenda.

*Um þetta er hægt að skrifa fræðiritgerðir, en ég bendi á Federalist Paper James Madisons númer 63 - sem sterkustu rökin gegn því að vinna svona hratt. Það að samþykkja þarf stjórnarskrárbreytingar á tveimur þingum ætti að vinna gegn þeirri hættu.
Setja á Facebook

1 comments:

Elías said...

Nú í dag taka bandarískir íhaldsmenn getuleysi Bush-stjórnarinnar sem dæmi um ókosti ríkisafskipta, t.d. af náttúruhamförum etc.

Post a Comment