22.3.09

kynjahvað

Nokkuð hefur borið á umræðu um kynjaða hagstjórn eftir að fjármálaráðherra tilkynnti í liðinni viku að hann hygðist skipa nefnd til að marka stefnumótun á því sviði. Sérstaklega þykir mér mikið hafa borið á fáfræði í þeirri umræðu, enda kannski ekki að undra því fjölmargir hafa ekki hugmynd um hvað "kynjun" er og eins og ljóst er af atburðum liðinna ára, þá vita enn færri hvað hagstjórn er - eða a.m.k. hvernig góð hagstjórn er.

Kynjuð hagstjórn er ekki eitthvað sem fjármálaráðherra er að draga upp úr hatti sínum vegna skorts á konum í alvöru nefndum. Þetta er aðferða- og hugmyndafræði sem hefur þróast síðustu áratugi og verið kynnt mikið á vegum Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna fyrir konur (UNIFEM), sem einnig heldur úti heimasíðu með fræðslu um málaflokkinn. Fyrrum framkvæmdastýra UNIFEM, Noeleen Heyzer, sagði að fjárlög skiptu máli vegna þess að þau tiltækju hvernig ríkisstjórnir virkjuðu og útdeildu sameiginlegum úrræðum/auðlindum. Fjárlög eru notuð til að móta stefnu, forgangsraða og uppfylla samfélagslegar og efnahagslegar þarfir borgaranna. Algengt er að fólk telji nóg að löggjöf og verkferlar séu kynhlutlaus, þannig sé hægt að forðast mismunun. Það er alls ekki rétt. Kynjuð hagstjórn leggur áherslu á hagkvæmni, skilvirkni, markvirkni en fyrst og fremst sanngirni.

Það hefur lengi staðið til að íslenska ríkið hæfi innleiðingu þessarar aðferðafræði. Í fjármálaráðherratíð sinni hélt Geir H. Haarde ræðu á ráðstefnu á vegum OECD og Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2000 þar sem hann fjallaði um þetta málefni. Geir sagði í ræðunni að samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða ætti að fara fram á öllum sviðum samfélagsins. Hann bætti því þó við að "við höfum ekki haft [kynja]sjónarmið í hjarta við mótun fjárlaga." Ekki voru heldur "greind áhrif fjárlaga á konur og karla." Þetta taldi hann þó vera nokkuð sem mætti vel íhuga að taka upp. Þó þyrfti að móta einfaldar verklagsreglur til að slík vinna skilaði árangri.

Kynjuð hagstjórn felur í sér að sjónarhorn beggja kynja komi fram á öllum stigum fjárlagagerðar og að innihald fjárlaganna, bæði í úthlutun fjármuna og innheimtu endurspegli jafnréttismarkmið sem ríkið hefur sett sér að öðru leyti. Þessi aðferðafræði hefur skilað töluverðum árangri víða um lönd - sérstaklega hefur það borið árangur að beita henni í löndum sem verið er að reisa úr rústum eftir hamfarir hvers konar. Nefnd sem starfaði á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og í sátu fulltrúar jafnréttisyfirvalda og fjármálaráðuneyta á Norðurlöndunum skilaði af sér fyrir tæpum þremur árum. Íslenska verkefnið bar ekki árangur, þar sem verkefnið sem var valið - kynjamunur á örorkubótakerfinu - byggði á lögum sem var breytt á hverju ári á skoðunartímabilinu. Gögnin voru því ekki sambærileg á milli ára. Niðurstöður í öðrum Norðurlöndum voru skýrari og verkefnið var kynnt á ráðstefnu í Helsinki síðla árs 2006. Nú er svo sannarlega tími til að endurskoða rekstur hins opinbera. Ef reynsla ríkja sem eru að byggja upp samfélag sitt eftir hrun gefur réttar vísbendingar, þá eru mun meiri líkur á að þessi aðferðafræði skili árangri nú en voru þegar norræna verkefnið var unnið. Nú er bara að treysta því að þessi verkefnisstjórn fái stuðning til að ljúka verkinu og að fjárlagaskrifstofa beiti síðan aðferðafræðinni.

span style="font-style:italic;">
Ýmis tæki eru til staðar ef fólk vill prófa. Hér er til dæmis mjög einfaldur gátlisti um jafnrétti í stefnumótun frá forsætisráðuneytinu (fjallar ekki um kynjaða hagstjórn en aðferðafræðin er að miklu leyti sú sama).
Setja á Facebook

1 comments:

Unknown said...

Kynjuð hagstjórn hljómar alla vega betur en úrkynjuð hagstjórn sem er væntanlega það sem við höfum undanfarin ár.

Post a Comment