15.3.09

harmleikur bæjarstjórans

Áhugaverðar niðurstöður fengust í ýmsum prófkjörum í gær og nótt, þó kannski aðallega fyrir skort á endurnýjun í þeim flestum. Sjö sitjandi þingmenn leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík - helsta endurnýjunin þar felst í því að Ólöf Nordal situr nú sem þingmaður NA-kjördæmis. Erla Ósk nær áttunda sæti - en hún er nú varaþingmaður. Með því að skjótast yfir Þórlind á lokasprettinum réttir hún líka aðeins kynjahlutföllin af á topp átta - þær eru þrjár á móti fimm körlum - en ekki eru konurnar í forystusætum þar.

Sjálfstæðisflokkurinn í SV-kjördæmi hrópar ekki beint endurnýjun heldur: Óli Björn í 4. sæti er sá eini sem ekki er sitjandi þing- eða varaþingmaður. Merkileg tíðindi hins vegar að kynjahlutföll eru jöfn í sex efstu sætum.

Niðurstöðurnar hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi eru betri fyrir konur, með Ragnheiði Elínu og Unni Brá í 1. og 3. sæti, og þriðju konuna í því fjórða. Það sem hlýtur að vekja furðu allra þeirra sem hafa kallað á endurnýjun er hins vegar að Árni Johnsen hljóti svona sterka kosningu í annað sætið. Verður spennandi að sjá hvort hann verði strikaður út í jafn miklum mæli og síðast. Þá myndi svo bregða við að konur yrðu í efstu tveimur, jafnvel þremur sætum, hjá Sjálfstæðisflokknum. Þetta þýðir væntanlega einhverja fjölgun kvenna í hópi landsbyggðarþingmanna.

Sjálfstæðisflokkurinn fær annars hrós fyrir að uppfæra reglulega allar tölur á vef sínum, það var miklu auðveldara og þægilegra að fylgjast með stöðunni þar en í öðrum flokkum. Fleiri mættu taka sér þetta til fyrirmyndar. Aðgangur að þessum gögnum auðveldar líka rannsóknir í framtíðinni.

En að öðrum flokkum - Samfylkingin í Suðvesturkjördæmi teflir fram þremur sitjandi þingmönnum og einum bæjarstjóra í efstu fjórum sætum. Lúðvík Geirsson virtist ekki kátur með sinn árangur, og sagði við mbl.is í gær: "En því er ekki að neita að ég hef fundið að margir hér í Hafnarfirði eru ekki sáttir við að ég sé að yfirgefa bæjarstjórn." Hann var sumsé ekki kosinn af því hann er svo frábær? Hvílíkur harmleikur. Ég ætla að muna það næst, þegar ég leita eftir nýju starfi, að standa mig ekkert of vel í því sem ég er í.

Samfylkingin í Reykjavík endurnýjar ekki mikið heldur - sitjandi þingmenn í þremur efstu. Nýtt blóð í 4.-5. og svo sitjandi þingmenn aftur í 6.-8. Konur fimm af átta efstu, akkúrat öfugt við Sjálfstæðisflokkinn, en karlarnir ofar hér en konurnar þar.

Niðurstöður hjá VG í SV-kjördæmi koma ekki sérstaklega á óvart. Þeir þrír listar sem VG teflir fram á höfuðborgarsvæðinu verða allir leiddir af sterkum konum. Stefnir allt í að kynjahlutföllin standi í stað á þinginu - vinstri flokkarnir og höfuðborgarkjördæmin sjá um það, kannski með Sjálfstæðisflokknum í suðri. Ég held að kallið eftir endurnýjun eigi eftir að lifa næstu fjögur árin.

Já, og svo að Lýðræðishreyfingin kvarti ekki yfir mér eins og fréttastjóra RÚV, þá er líka prófkjör í gangi hér. Þeir sem ekki fengu framgang í prófkjörum helgarinnar eiga kannski sóknarfæri þar.
Setja á Facebook

1 comments:

Anonymous said...

vó, ekki er nú mikið vit í lýðræðishreyfingarlistanum...

Post a Comment