28.11.08

glæpur, hryðjuverk eða stríð

Hræðilegt að fylgjast með fréttunum frá Mumbai núna. Ekki er ljóst hvort bardögumlokið og að sjálfsögðu er verið að leita að sökudólgum. Fyrstu viðbrögðin eru auðvitað að benda á Al Kaída, enda stríðið gegn hryðjuverkum nærstætt og ef Indland og Pakistan einbeita sér að vandamálum tengdum Kasmír hafa Pakistanar sérstaklega minni úrræði til að vinna gegn Al Kaída á landamærunum við Afganistan. Það, að fórnarlömbin eru vestræn og sérstaklega Gyðingar, gæti stutt við þessa ályktun. Bandarískar leyniþjónustur benda þó á að um pakistanskan hóp, Lashkar-e-Taiba, sé að ræða, en hópurinn hefur það að markmiði sínu að ná tökum á Kasmír. Árásir á vestræna ferðamenn draga úr líkunum á því að hér sé um Kasmír-hóp að ræða, en það er þó ekki útilokað.

Þessar árásir gera samband Indlands og Pakistans, sem er stirt fyrir, að miklu forgangsatriði fyrir Barack Obama. Ríkin búa bæði yfir kjarnavopnum, sem gerir það enn meira áríðandi að bregðast hratt og örugglega við ástandinu. Lashkar-e-Taiba er talinn hafa hlotið þjálfun í Pakistan og þar er einnig talið að hópar hliðhollir Al Kaída starfi svo þetta tengist beint inn í stríðsrekstur Bandaríkjanna þar. En í augnablikinu er líka áhugavert að velta fyrir sér hvernig tekið verður á þessu, vegna þess að á meðan enginn hópur eða ríki hefur lýst yfir ábyrgð á þessum verknaði er um glæp að ræða sem Indland þarf að bregðast við. Sé glæpurinn framinn í pólitískum tilgangi breytist hann í hryðjuverk og þá er spurningin hvort ætlunin er að hafa áhrif á Indland eitt eða á alþjóðlegt jafnvægi á svæðinu eða jafnvel á heimsvísu. Sé ríki á bak við þessar árásir er spurning hvort stríðsyfirlýsing fylgi í kjölfarið - eða hernaðaraðgerðir. Pakistanski sendiherrann í Bandaríkjunum hefur lýst því yfir að Pakistan standi ekki fyrir þessu en auðvitað geta líka verið öfl innan hersins sem standa fyrir þessu í trássi við stefnu ríkisins. Hvað sem þetta er, þá er ljóst að þetta hjálpar ekki til að bæta ástandið í Afganistan og nágrannalöndum.

Ég bendi á þátt af Gárum sem ég vann snemma á þessu ári, þar sem ég ræði við íslenskan sendiráðunaut sem starfaði á Indlandi og sænskan sérfræðing um Indland. Þáttinn má nálgast í mp3 formatti á hlaðvarpi RÚV hér (ef þú vilt sækja hann á iTunes er betra að fara hingað, þátturinn er frá 20. janúar).
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment