8.11.08

það þarf heilt þorp



Nú þegar kosningunum er lokið byrjar breytingin og það þarf að safna liði, fylla í öll mikilvægu störfin. Obama hefur ráðið Rahm Emanuel sem starfsmannastjóra og næst á dagskrá er að fylla í öll mikilvægu ráðgjafastörfin og ráðherrastólana. John Kerry, fyrrum forsetaframbjóðandi, er talinn líklegur utanríkisráðherra. Hann var reyndar endurkjörinn til öldungadeildarinnar á þriðjudaginn, en talið er að hann myndi þiggja starfið ef honum byðist það (þá þurfa demókratar að fylla tvö sæti í öldungadeildinni - sæti Obamas sem talið er líklegt að Jesse Jackson jr. fái, og stæi Kerrys). Lawrence Summers er einn þeirra sem líklegastur er talinn í fjármálaráðherrastarfið. Ekki eru allir jafn hrifnir af því - Summers var rektor í Harvard þegar hann sagði fyrir tæpum fjórum árum að konur væru sennilega bara ekki jafn góðar í vísindum og karlar og gerði háskólasamfélagið alveg brjálað. Enn frekari ástæða til að óttast þessa skipun er þetta bréf sem hann skrifaði Kenneth Lay hjá Enron fyrir tæpum áratug. Þá var Summers aðstoðarráðherra og lofaði Lay í bréfinu að hann myndi fylgjast vel með afnámi regluverks í kringum orkugeirann. Traustvekjandi, eða þannig. Hægt er að fylgjast með forsetaskiptunum á þessari síðu hér.

Og kannski það mikilvægasta - að tryggja að fjölskyldan breytingunum vel. Obama sagði í ræðu sinni á þriðjudagskvöld að dætur sínar fengju hund með sér í Hvíta húsið. Á blaðamannafundi í dag fór mikill tími í að ræða hvernig hund. En auk hundsins eru líkur á því að móðir Michelle Obama flytji með þeim, a.m.k. til Washington og jafnvel í Hvíta húsið. Það er nefnilega eins og Hillary Clinton sagði, það þarf heilt þorp til að ala upp börn.

Krugman og Brooks hjá NY Times gefa Obama ólík ráð um hvernig hann eigi að hegða sér þegar hann er kominn til valda og hér er skemmtileg hálf-fræðileg lesning um stjórnmálaþróun í Bandaríkjunum, þar sem því er haldið fram að nú taki við fjórða lýðveldið í sögu landsins.

Og svona smá afþreying: Will.i.am samdi sigurlag fyrir Obama áður en hann vann - klippti það saman á miðvikudag og flutti á Oprah í gær - og brot var flutt hjá Larry King. Það á að vera aðgengilegt hér fljótlega.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment