3.11.08

alveg að bresta á

Jæja, þá líður að því að þessari blessuðu kosningabaráttu ljúki. Kjörstaðir opna um 30 tímum eftir að þetta er skrifað og aðra nótt fara tölurnar að tínast inn. Það er nægur hasar í kosningunum nú þegar, ég heyrði í gær að 23 milljónir kjósenda hefðu þegar kosið og það virðast vera demókratar í mun meira mæli en repúblikanar. Veðurspáin er góð og það veit á gott fyrir demókrata ef sagan er einhver vísbending, en repúblikanar virðast mæta á kjörstað sama hvernig viðrar.

Hér skrifar reyndur blaðamaður að þessi kosningabarátta sé sú áhugaverðasta sem hann hefur fjallað um, og hann fjallaði um kosningarnar 1960 svo hann hefur einhvern samanburð. Hann vísar til þess að 8. desember 2007 hafi 18.000 manns mætt á framboðsfund Obama þar sem Oprah lýsti yfir stuðningi við hann. Þessi samantekt á NY Times lýsir framboðsárinu vel og er góð áminning um það hversu mikil vatnaskil felast í þessum kosningum, bæði í framboði Obama, Hillary Clinton og Söru Palin, en kannski sérstaklega í því ef Obama nær kjöri. Hann yrði ekki eingöngu einn yngsti kjörni forseti Bandaríkjanna, heldur sönnun þess að sá fjölbreytileiki sem ríkið státar sig af getur endurspeglast í valdamestu stöðum innan þess. Áhuginn á kosningunum er svo mikill að 10 og 12 milljón fleiri fylgdust með útsendingum frá landsþingum demókrata og repúblikana og reiknað er með mestu kosningaþátttöku frá því 1908.

Tom Friedman skrifaði góðan http://www.nytimes.com/2008/11/02/opinion/02friedman.html?_r=1&hp&oref=slogin, þar sem hann talar um hversu fjarri raunveruleikanum kosningabaráttan hefur verið. Frambjóðendurnir segja oft "þegar ég er forseti verður ..." (setjið inn kosningaloforð að eigin vali), eins og þeir reikni ekki með því að þurfa að vinna með neinum eftir kosningarnar. Demókratar binda miklar vonir við að ná meirihluta í þinginu, en til þess að ná meirihluta hafa miðju-demókratar verið settir í framboð í baráttukjördæmum og þeir halla sér að repúblikönum í ýmsum málefnum. Það er sumsé ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið (eða næstum því). Hér er líka góð áminning um það að þó svo allt stefni í að Obama vinni, þá er ekki þar með sagt að þau gildi sem hann er talinn standa fyrir séu að ná fótfestu í bandarísku samfélagi. Þvert á móti, segir Polman, þá er líklegt að Obama færi sig nær miðjunni ef hann nær kjöri, því annars nær hann ekki endurkjöri.

Og þrátt fyrir að ég sé að tala um það hvernig hlutirnir geta orðið ef Obama nær kjöri, þá held ég enn að það sé hæpið. Bandarísku stjórnmálaskýrendurnir telja það líklegra en ég. James Carville (demókrati) spáir Obama 378 atkvæðum, Paul Begala (demókrati) spáir 325, Leslie Sanchez (repúblikani) segir að ef Obama hefur meira en 4ra prósenta forskot í könnunum í dag þá sé hann búinn að vinna. Alex Castellanos (repúblikani) spáir Obama 318 og David Gergen spáir honum 338 +/-20. En ef guð og gæfan lofar, þá verður þetta ljóst eftir tvo sólarhringa og við þurfum ekki að bíða í daga eða vikur eftir niðurstöðu. Hér eru svo nokkrir góðir punktar um það sem næsti forseti Bandaríkjanna þarf að gera þegar hann tekur við embætti.
Setja á Facebook

1 comments:

Anonymous said...

Minnir mig a lagið Bahama, hljómar eins og Obama, hey Obama, hey Obama Obama...

Post a Comment