26.10.08

níu dagar

Lítur ekki vel út fyrir McCain - hann er með forskot í könnunum í Tennessee, Arkansas og South Dakota en ekki einni einustu könnun á landsvísu. Obama er með 11% forskot í Pennsylvaniu skv. sömu heimild, en það er sennilega það ríki sem fóstureyðingar gætu spilað hvað mest inn í niðurstöðuna - og auðvitað haft áhrif á þingkosningarnar. Hér er t.d. pistill á Philly.com sem leggur áherslu á þá stefnu kaþólska biskupsins í umdæminu að enginn góður kaþólikki geti með góðri samvisku kosið mann sem styður rétt til fóstureyðinga. Demókratarnir hafa brugðist við með því að leita að frambjóðendum sem eru andsnúnir réttinum til fóstureyðinga og styrkja þá í íhaldssömum kjördæmum og ætla þannig að tryggja tangarhald sitt á þinginu á næsta kjörtímabili. Demókratarnir munu styrkja stöðu sína umtalsvert í þinginu í þessum kosningum, og það er m.a.s. mögulegt að þeir nái yfir 60 sætum í öldungadeildinni. Það tryggir þá gegn svokölluðum filibuster-tilraunum til að koma í veg fyrir að mál fari í gegn. Því fylgir auðvitað sá ókostur að þeir gætu þurft að standa við kosningaloforðin og hér er góð gagnrýni á möguleika Obama til að gera stærstu loforðin sín að veruleika.

Framboð Obama telur ástæðu til bjartsýni í því að fleiri demókratar eru að kjósa utankjörstaðar en gerðu 2004. Hér er listi yfir kosningaþátttöku til dagsins í dag í nokkrum ríkjum. Biðin eftir niðurstöðu gæti lengst fyrir okkur hérna á Íslandi, þar sem síaukin áhersla frambjóðendanna á fjallaríkin í vestri þýðir að niðurstöður eru ekki komnar fyrr en eftir þrjú aðfaranótt miðvikudagsins eftir kosningar.

Ég skrifaði heillanga athugasemd við síðustu færslu á föstudaginn, en hún virðist ekki hafa farið inn. Einhver benti á Acorn og tengsl Obama við þau samtök. Hér er leiðari í NY Times frá því í síðustu viku sem tekur á málinu (ath. NY Times lýsti yfir stuðningi við Obama í liðinni viku) og hér er umfjöllun um Acorn og kjörskrár-skráningar sem tekur aðeins á kosningasvindlumræðunni líka.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment