7.10.08

McCain þarf ógn við þjóðaröryggi

John McCain er kominn töluvert langt á eftir Barack Obama í skoðanakönnunum fyrir forsetakosningarnar. Ef svo fer fram sem horfir þá tapar hann með töluverðum mun. Tilraunir hans til að snúa þessu við hafa misheppnast, það að velja Palin með sér aflaði honum gífurlegrar umfjöllunar en jók ekki fylgið og tilraunin til að taka stjórnina þegar kosið var um björgunaraðgerðirnar í bandaríska þinginu misheppnaðist algjörlega. Eftir kappræðurnar í síðustu viku er Palin sennilega búin að vinna aftur nóg traust til að fólk telji hana ekki vera algjörlega vonlausa og þá fer athyglin að beinast aftur að McCain. En ef eitthvað á að breytast þarf utanríkismálakreppa að koma til - á því sviði nýtur hann meira trausts en Obama - og hún þarf að vera nógu alvarleg til þess að kjósendur breyti forgangsröðun sinni, en í könnun CNN síðustu daga nefna 58% kjósenda efnahagsmálin fyrst af þeim málum sem hafa áhrif á kosningahegðun (mynd stolið héðan).


Hér eru áhugaverðar vangaveltur um það hvað gæti komið til. Í stuttu máli:

Ný ríkisstjórn í Pakistan felld, Al kaída og Talíbanar styrkjast þar. Indland hefur árás inn í Pakistan. Karzai verður veikari í Afganistan og svæðið verður undirlagt af óreiðu.

Ísrael ræðst á Íran á grundvelli upplýsinga um að kjarnaprógramm þess ríkis sé þróaðra en áður var talið. Bandaríkin gera ekkert til að stöðva þá. Íranir telja þetta bandarískt-ísraelskt samsæri og nota Hizbollah til að ráðast á Bandaríkin hvar sem hægt er.

Hryðjuverkamenn ráðast á Bandaríkin rétt fyrir kosningar og hafa þannig áhrif á niðurstöður kosninga eins og gert var á Spáni 2004. Bandaríkjamenn eru nú svartsýnni en þeir voru eftir 11. september 2001. Hryðjuverkaárás í kjölfar kreppunnar gæti gert út af við þjóðarsálina.

En þangað til er af nógu að taka. Báðir frambjóðendur lögðu á sínum tíma mikið upp úr því að heyja heiðarlega kosningabaráttu um málefni. Það er nú liðin tíð, og spurning hvort það muni birtast á borgarafundinum sem þeir mætast á í kvöld. Skítkastskosningabaráttan er loksins hafin, hér er næstum 15 mínútna langt myndband frá Obama um Keating 5 hneykslið sem McCain var aðili að:


McCain hefur sett þessa auglýsingu í loftið, þar sem Obama er sagður halda því fram að bandarískir hermenn í Afganistan hendi sprengjum úr lofti á þorp og drepi óbreytta borgara:
Setja á Facebook

2 comments:

Anonymous said...

Ja, það er nú einmitt það sem Bandaríkjamenn eru að gera í Afganistan þannig að ekki væri það rangt hjá Obama ef hann þyrði að halda þessu fram.

Unknown said...

I can't read Icelandic, but looking at your blog makes me think you could answer this question for me, if you don't mind... Can you recommend a place in Reykjavik for some visiting Americans to watch the October 15 debate? We're Obama supporters. Thanks.

Post a Comment