14.9.08

niðurstöður kosninganna í BNA

Ég fékk spurningu í athugasemdum hér að neðan, um það hvort núverandi staða í skoðanakönnunum í Bandaríkjunum gæti mögulega orðið niðurstaða kosninganna, þ.e. að McCain-Palin muni hafa betur yfir Obama-Biden. Í fyrradag var McCain með forskot hvað atkvæði varðar en það hefði ekki dugað honum til að fá fleiri kjörmenn en Obama, svo Obama hefði orðið forseti miðað við þá niðurstöðu. Eins og staðan er í dag gæti svo farið að McCain ynni, en á Electoral-Vote.com er það ansi tæpt, hann fengi 270 kjörmenn og Obama 268. RealClearPolitics, hins vegar, sýnir Obama sem sigurvegara, með 273 kjörmenn á móti 265 kjörmönnum McCains. Báðir möguleikar sýna auðvitað hversu óhemju tæpar þessar kosningar verða, og á meðan repúblikönum tekst að halda athyglinni eins vel og þeir hafa síðustu vikurnar, þá er erfitt að sjá annað en sigur fyrir McCain-Palin.

Og fyrst ég nefni Palin, þá viðurkenni ég fúslega að ég hef gaman af innkomu hennar í stjórnmál þó mér standi jafn mikill stuggur af öllum þeim málefnum sem hún stendur fyrir. Flestir fjölmiðlar einbeita sér nú að henni, enda er hún ferskasta sagan í þessum kosningum, við vitum allt sem hægt er að vita um hina frambjóðendurna (Obama er ekki orðinn fimmtugur og hefur skrifað tvær endurminningabækur). Fjölmiðlarnir eru nokkurn veginn sammála um það að hún yrði skelfileg og keppast um að hneykslast á fáfræði hennar og því hversu svarthvítur heimurinn virðist vera í hennar augum. En nákvæmlega þetta getur virkað henni til framdráttar hjá ákveðnum hópi kjósenda, þ.e. hjá þeim sem finnst stóru blöðin ekki standa fyrir sín gildi og upplifa sig ekki sem hluta af "elítunni" á ströndunum. Flest fáum við okkar upplýsingar um Bandaríkin frá ströndunum og vitum lítið um það hvernig fjöldinn allur af fólki býr inni í landi, í því sem stundum er kallað "fly-over states"; ríkin sem elítan flýgur yfir til að komast á milli stranda. Þetta er svolítið svipað stemningunni sem var meira áberandi hér á landi fyrir nokkrum árum og heyrist enn í umræðunni um konur sem hafa aldrei dýft hendinni í kalt vatn og karla sem aldrei hafa migið í saltan sjó. Hvað sem má segja um Palin, þá hefur hún gert bæði og fólk er hrifið af því. Það er fullt af fólki sem getur ekki skilgreint Bush-kenninguna en telur að Bandaríkin þurfi að vernda eigin hagsmuni, jafnvel með því að ráðast að fyrra bragði á ætlaða óvini. Það er fullt af fólki sem trúir því enn að Írak hafi verið á bakvið árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001. Þetta fólk er ekkert að stressa sig á spurningum um þekkingu, það vill manneskju sem það skilur. Eitt af því sem gerði út af við framboð Dukakis 1988 var að hann neitaði því að hann myndi styðja dauðarefsingu yfir manni sem nauðgaði og myrti konuna hans. Margt fólk skilur ekki svoleiðis viðbrögð (og hafandi orðið fyrir ofbeldisglæp sjálf, þá get ég alveg borið um það að mig langaði um tíma til þess að ganga í skrokk á manninum) og treystir ekki fólki sem er of analýtískt. Palin líður ekki fyrir svoleiðis.

Upptaka af svari Dukakis í kappræðum hans og Bush eldri árið 1988.


Áhugaverður punktur samt hér hjá Bill Schneider á CNN, þar sem hann bendir á að eftir að McCain valdi Palin hefur afstaða Bandaríkjamanna til þess hvor forsetaframbjóðendanna sé líklegri til að sameina þjóðina snúist við; mun fleiri telja Obama nú líklegri en McCain, en það var öfugt áður. Palin virðist þannig hafa sömu áhrif og Clinton, fólk annað hvort dýrkar hana (hörðu repúblikanarnir) eða hatar (demókratarnir). Þetta er eitthvað sem Obama þarf að spila úr, og aftur, má ekki gleyma því að hann er að keppa við McCain, ekki Palin, um forsetaembættið. Öll athyglin sem beinist að Palin þýðir að á meðan fær McCain bara að svífa um óáreittur.

ps - fann góða grein um Palin eftir að ég skrifaði þetta. Mæli með henni.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment