12.9.08

fyrsta viðtalið við Palin komið í loftið

Sarah Palin veitti fyrsta viðtalið sitt í dag; Charlie Gibson á ABC var valinn til að taka það og bútar fóru í loftið í kvöldfréttum. Það sem var sent út áðan má lesa hér og hér, auk þess sem hægt er að horfa á hluta þess. Spurð hvort það hafi ekki þurft ákveðinn hroka (e. hubris, endilega segið til ef þið eruð með betri þýðingu) að þiggja tilboð um að verða varaforsetaefni McCains, jafnreynslulítil og hún er, svarar Palin:
I answered him yes because I have the confidence in that readiness and knowing that you can't blink, you have to be wired in a way of being so committed to the mission, the mission that we're on, reform of this country and victory in the war, you can't blink.


Það má alveg pirra sig á skoðunum Palin, en því verður ekki neitað að hún er snögg í tilsvörum og getur algjörlega haldið sínu. Gibson spurði hana líka hvort hún hefði einhvern tímann hitt þjóðhöfðingja, og hún svarar undireins neitandi, en bendir um leið á að það sama hafi eflaust mátt segja um flest varaforsetaefni í Bandaríkjunum fram til þessa. Þegar hann rukkar hana um innsýn á sambandi Bandaríkjanna og Rússlands verður þó fátt um svör, þó hún bendi á að það sjáist til Rússlands frá Alaska. Sama má segja um Íran, það á bara að halda áfram að hóta þvingunum (og kannski framfylgja þeim, einhvern veginn, einhvern tímann) og aldrei að draga í efa að Ísrael breyti rétt ef það segist vera að verja öryggi sitt. Besta svarið er kannski þegar hún er spurð um Bush-kenninguna (Bush Doctrine)* og svarar því til að það sé heimssýn Bush.

Kannski ekki skrýtið að sá hópur repúblikana sem minnst tjáir sig um ágæti Palin sé utanríkisstefnuklíkan. Lugar, sem er hæst setti repúblikaninn í utanríkismálanefnd öldungardeildarinnar, fagnaði vali Obama á Biden en hefur ekkert sagt um Palin. Spurðir um hæfni hennar í þessum málaflokki fara flestir sömu leið og Palin sjálf: fara að tala um eitthvað annað.

* Í stuttu máli, sú utanríkisstefna sem Bush hefur mótað, að BNA geti komið fram við ríki sem styðja hryðjuverkamenn eins og þau séu sjálf hryðjuverkamenn; megi hefja stríð að fyrra bragði til að tryggja öryggi sitt; stuðla skuli að framgangi lýðræðis um allan heim, og; BNA fari í einhliða í þær hernaðaraðgerðir sem þau telja nauðsynleg fáist ekki stuðningur í alþjóðasamfélaginu.
Setja á Facebook

8 comments:

Anonymous said...

Það skemmtilega við þetta viðtal var að Gibson var valinn af Repúblikanaflokknum. Hann þótti ólíklegastur til að spyrja Palin í þaula.

Sjáum nú hvort hún þori að mæta í meira krefjandi viðtöl.

Hjörvar Pétursson said...

Hégómi?

Silja Bára Ómarsdóttir said...

fékk aðra ábendingu sem mér finnst betri, þ.e. dramb. Held það nái merkingunni best.

Anonymous said...

Getur þú kannski útskýrt eitt fyrir mér? Af hverju er John McCain með forskot á Obama? Er þetta tímabunbið forskot vegna hversu ný Sarah Palin er og að þetta er hennar "moment" eða gætu þetta hugsanlega orðið niðurstöður kosninganna?

Það má ýmislegt segja um Bandaríkjamenn en ég bara vil ekki trúa því að meirihluti þjóðarinnar vilji skrifa upp á þetta "team" og þá sérstaklega fröken Sarah Palin. Horfði á viðtalið og átti bara ekki til orð!

Silja Bára Ómarsdóttir said...

Jóna, í augnablikinu virðist Obama tapa hvað atkvæði varðar en vinna hjá kjörmönnunum, rétt eins og Bush gerði árið 2000. Hann sem sagt yrði forseti en með færri atkvæði á bak við sig í kosningunum. Skal reyna að finna tíma til að skrifa aðeins meira um þetta um helgina.

Anonymous said...

dreissug eða hofmóðug finnst mér betra. Það er repúblíkönsk kurteisi í því að nota „hubris“

Anonymous said...

hubris... stórt sjálfsálit.

egillm said...

"Besta svarið er kannski þegar hún er spurð um Bush-kenninguna (Bush Doctrine)* og svarar því til að það sé heimssýn Bush."

Er þetta ekki það sem er búið að vera gagnrýna hana mest fyrir? Að hún hafi ekki þekkt Bush kenninguna?

Post a Comment