24.8.08

viltu flytja til Denver?

Á forsíðu fasteignablaðs The Denver Post/Rocky Mountain News eru landsfundarfulltrúar boðnir velkomnir til Denver - og boðið að skoða fasteignir á meðan þeir eru hérna. Landsfundur demókrata var síðast haldinn í Denver fyrir 100 árum, þegar bærinn var að jafna sig eftir að silfrið hrundi 15 árum áður. Denver-búar eru vanir sveiflum, hér er annað hvort allt á uppleið eða allt að fara til fjandans. Íslendingum myndi örugglega líða vel hérna - veðrið er líka álíka óstöðugt og það er heima. Hér er allt til alls, segja fasteignasalarnir, tónleikasalir, flott listasafn, tíu akreina hraðbrautir og léttlest sem flytur 60.000 farþega á dag. Borgin tekur fagnandi á móti landsfundarfulltrúum (og þeim 15.000 fulltrúum fjölmiðla sem koma til að fjalla um hana) og vonast til að einhverjir ákveði að flytja hingað að henni lokinni.

Ég er annars að vísítera í Ameríku, hjá gömlum vinum í Denver á meðan landsfundur demókrata stendur yfir, mæti í hjónavígslu í Sacramento og kíki svo "heim" til Los Angeles í kjölfarið. Ferðalagið gekk að óskum, ein nótt á flugvallarhóteli og fínt tengiflug yfir til Denver eftir smá tafir. Gamla herbergið mitt beið mín uppábúið. Guðdóttir mín sjö ára biður um að fá að koma með mér á ráðstefnuna og litli bróðir hennar (verður fjögurra ára eftir tvær vikur) hleypur að sjónvarpinu með sælubros á vör þegar minnst er á Obama og furðaði sig mikið á því yfir morgunmatnum að Mariu Shriver skyldi hafa dottið í hug að giftast Schwarzenegger í ljósi þess að hann er repúblikani. Hann var að sýna mér í gær hvað hann hleypur hratt og sagði mér svo í óspurðum fréttum að Obama hlypi sko rosalega hratt, miklu hraðar en repúblikanar. Ég velti fyrir mér hvort það hafi mótað þessa hugmynd hans að hér er talað um "running for office"?

Ég skrepp niður í bæ á eftir að sækja passann minn fyrir ráðstefnuna, en á morgun byrjar hasarinn. Hægt er að skoða dagskrá hennar hér en á ráðstefnunni er ég búin að mæla mér mót við fjöldann allan af gömlum skólasystkinum sem eru annað hvort fréttamenn eða landsfundarfulltrúar.
Setja á Facebook

1 comments:

Anonymous said...

Svo bara passarðu þig að vera ekki með neinn uppsteit. Mér skilst að það hafi verið komið upp fangabúðum "a la Gitmo" þarna til að hýsa ólátabelgina.

Post a Comment