27.8.08

hvað felst í von?

Fór á annan dag landsfundarins í dag og hann var heldur kraftmeiri en í gær. Lykilávarp Marks Warners fannst mér frekar flatt, hvorki fugl né fiskur, en bæði Deval Patrick og Brian Schweitzer voru mjög góðir. Þegar Schweitzer lauk máli sínu var salurinn orðinn svo fullur að fulltrúar slökkviliðsins létu loka öllum inngöngum og ef fólk fór út var því sagt að það kæmist ekki inn aftur. Ég er hins vegar bara með aðgang að gólfinu í hálftíma í senn og þurfti því að fara út og endurnýja. Tókst að kjafta mig aftur niður á gólf í smá tíma en rétt í þann mund sem myndbandið um Hillary fór að rúlla var öllum sem voru í tröppunum sagt að yfirgefa svæðið og ég hélt hreinlega að ljósmyndari sem var fyrir framan mig yrði handtekinn (sneri mér við og sá að ég var þar í salnum sem öll fyrirmennin sitja, fjölskylda Howards Deans var mér á vinstri hönd og Michelle Obama og Joe Biden stungu saman nefjum í stúku hægra megin) og vildi ekki blanda mér í rifrildið. Ég fór því og fékk passann endurnýjaðan einu sinni enn og hljóp upp á þriðju hæð, þar sem góðhjörtuð kona sá aumur á mér og leyfði mér að sitja í stiganum þar sem ég hafði fínt útsýni yfir salinn og Hillary.

Ræðan var alveg mögnuð og stemningin í salnum betri en ég hef séð áður. Spjöldum með nafni Hillary var dreift og ég heyrði á landsfundarfulltrúum seinna að enginn hefði hafnað þeim. Ræða Hillary var í takt við það sem ég hafði fregnað af fjáröflunarfundi fyrr um daginn - hver sá sem studdi mig í forvalinu ætti að styðja Obama í kosningunum. Hún taldi upp ástæðurnar fyrir því af hverju hún sóttist eftir tilnefningunni, og sagði þetta vera ástæðurnar fyrir því að hún styddi Obama í kosningunum. Þegar hún bað stuðningsfólk sitt að spyrja sig hvort það hefði verið að berjast eingöngu fyrir sig sneri konan í næsta sér að mér og sagði: "Þetta er einmitt málið - ég hefði viljað hana og barðist fyrir hana. En nú styð ég Obama. Við megum ekki tapa þessum kosningum." Almannarómur hermir að Hillary vilji ekki virðast tapsár af því hún vill tryggja sér möguleika á framboði 2012 ef Obama nær ekki kjöri.

Repúblikanar hafa sett upp stúdíó hér til að koma sínu sjónarhofni á framfæri og fá fínar undirtektir hjá fjölmiðlum. Demókratarnir hafa ekki verið mikið að ráðast á McCain hingað til, en auglýsingar sem komu út í gær eru loksins að byrja að taka á honum. Varla seinna vænna, því forskot Obama var svo gott sem horfið eftir síðustu viku. Hillary skaut nokkrum skotum á McCain í gær, og reiknað er með að Joe Biden taki hann betur fyrir í kvöld. Það er hefð fyrir því að flokkarnir græði um 10% fylgi í landsfundarvikunnu, en strax á föstudag kynnir McCain varaforsetaefni sitt og repúblikanafundurinn hefst svo á mánudag svo það verður lítill tími fyrir demókratana að vinna fylgi út úr fundinum. Eitt af því sem þarf svo að gerast á fimmtudaginn (og helst fyrr) er að sýna hvað felst í þeim skilaboðum um von og breytingu sem Obama hefur prédikað. Eins og einn pistlahöfundur NY Times segir, þá þarf hann að fara að fjalla um Bandaríkin og framtíð þeirra, ekki sjálfan sig og fortíð sína.

Í öðrum fréttum, þá hafa sennilega allir heyrt af því að þrír menn voru handteknir grunaðir um að ætla að reyna að myrða Obama. Þetta voru dópistar og kynþáttahatarar, sem skv. nýjustu fréttum voru svo illa skipulagðir að það er engin hætta talin stafa af þeim.

Að lokum kem ég á framfæri skilaboðum frá Patrick, sem er lögfræðingur í St. Louis, en hann sagði: "Fyrir hönd tveggja þriðju hluta bandarísku þjóðarinnar biðst ég afsökunar á síðustu átta árunum og lofa að gera mitt besta til að koma í veg fyrir að þetta ástand haldi áfram."

Selebb kvöldsins voru (í þeirri röð sem ég sá þau): James Carville (og hann var víst ekki kátur með fyrsta kvöldið), Gloria Reuben (Jeanie Boulet úr ER), Jasmine Guy (Whitley úr A Different World sem ég skil ekki að ég skuli hafa þekkt, Richard Schiff (betur þekktur sem Toby Siegler úr West Wing), George Stephanopoulos, Andrea Mitchell, Mitt Romney (já, ég velti því fyrir mér hvað hann var að gera á demókratafundi), og svo auðvitað óteljandi pólitíkusar, frambjóðendur og ræðumenn, sem eru of margir til að telja upp.
Setja á Facebook

2 comments:

Anonymous said...

Hjartanlega sammála þér. Þessi ræða sem Hillary flutti var alveg mögnuð. Lét mig hafa það að vaka til að geta hlustað á ræðuna "live" á Sky. Þessi ræða sannaði enn einu sinni hverslags afburðasjórnmálamaður Hillary er.

Anonymous said...

Að vera góður ræðumaður er einn kostur af nokkrum sem stjórnmálamenn þurfa að hafa, en ef við ætlum að dæma þá einungis útfrá þeim eiginleika, Anna, þá er Barack Obama ekkert minna en Martin Luther King, Nelson Mandela og Winston Churchill sameinaðir. Svo góður ræðumaður er hann.

Post a Comment