19.1.10

Obama að ári liðnu

 Á morgun verður ár liðið frá því Obama sór embættiseið sem 44. forseti Bandaríkjanna. Í dag verður kosið um eftirmann Teddy Kennedys og miðað við kannanir í gærkvöld, þá stefnir allt í að repúblikani nái sætinu. Þetta á víst að vera jafn hræðilegt fyrir Obama eins og í millikosningunum fyrir áramót, þar sem velgengni repúblikana átti að endurspegla veikleika hans. Ég man nú ekki eftir neinum vísindum um svona aukakosningar, en ég efast um að þær hafi meira forspárgildi en millikosningarnar hafa - sem er mjög lítið. En það myndi sannarlega ekki líta vel út fyrir hann að missa þingmannssætið, og getur auðvitað haft áhrif á framgang stefnumála hans í þinginu (sérstaklega sjúkratryggingafrumvarpsins).

USA Today gerði könnun á áliti fólks á Obama. Það á eftir að birta nánar úr henni, en meira en helmingur Bandaríkjamanna er ánægður með frammistöðu hans í alþjóðamálum, minna en helmingur ánægður með hann í heilbrigðis- (36%) og efnahagsmálum (41%) (tölur frá Fox, sjá næsta tengil). Fólk er almennt ánægt með hann persónulega, ef svo má segja, telur hann skilja þarfir fólks og skilja vandamál almennings. Hann endar þó almennt í e-u miðjumoði, sem Fox News túlkar sem svo að ekkert samræmi sé milli athafna hans og orða. Í USA Today er gerð úttekt á innsetningarræðunni og stöðunni í dag. Fyrir ári voru 85% Bandaríkjamanna ósátt við stöðu mála þar í landi. Í dag eru 76% ósátt. Það er kannski einhver breyting, en varla þær sviptingar sem fólk vonaðist eftir.

Í Bandaríkjunum er afmælisdags Martins Luthers Kings minnst á þriðja mánudegi í janúar, sumsé í gær. Obama gerði mikið út á það í kosningabaráttu sinni hvernig framboð hans endurómaði baráttu Kings. Hér er pistill um það hvernig MLK myndi líta á Obama í dag. Að lokum er Time með ágæta úttekt á fyrsta ári Obama hér, þetta eru margar síður en lítill texti á hverri. Áhugavert að sjá þarna hvernig hann er talinn standa sig vel í ýmsum málum, einkum á alþjóðavettvangi sem er ekki alveg í takt við umræðuna í kringum Nóbelsverðlaunin, en verst í almannatengslum og ímyndarsköpun.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment