17.3.09

léleg stjórn en skilvirk stjórnsýsla

Eins og margir vita eflaust þá sendi ég kvörtun til stjórnvalda í gær þar sem mér var ofboðið eftir ítrekuð brot á jafnréttislögum. Ég er ánægð með það hversu mikla umfjöllun kvörtunin hefur fengið (sjá 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8 og 9) og verð sérstaklega að hrósa Jafnréttisstofu, sem hefur þegar svarað mér og að auki gefið út að formlegar kvartanir hafi borist vegna fleiri sambærilegra mála.

Stjórnsýslan er því að standa sig með prýði og er að kanna málið. Í svari til mín segir Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu að málið sé flókið, því Alþingi kjósi báðar nefndirnar sem ég nefni, og að þingið sé
"undanþegið stjórnsýslulögum. Þá vaknar spurningin hvort það sé undanþegið jafnréttislögum? Í umræðum við félagsmálanefnd héldum við [Jafnréttisstofa] því stíft fram að 15. gr. gildi um þingið eftir því sem hægt er. Það er t.d. augljóst mál að Frjálslyndi flokkurinn getur ekki kosið neina konu í nefnd innan þingsins vegna þess að hann hefur enga konu á þingi. Ég [Kristín] túlka það svo að þegar um er að ræða nefnd sem starfar utan þings og samvæmt ákveðnum lögum beri skilyrðislaust að fara eftir 15. gr. Í dæmi Seðlabankans voru tilnefndir bæði aðalmenn og varamenn og því hæg heimatökin að raða þannig að skipanin stæðist lög. Það var ekki gert. Flokkarnir áttu að tilnefna karl og konu en gerðu það ekki. Það er svo spurning hvor hægt sé að kæra löggjafann fyrir brot á lögum?"


Ég hef hins vegar ekkert heyrt frá stjórnvöldum* og bíð spennt eftir að fá niðurstöðu frá Jafnréttisstofu. Hvort sem um er að ræða formlegt brot á lögunum eða ekki, þá stend ég föst á því að hér er gengið gegn anda laganna. Hið sama á við um fjölda skipana í nefndir upp á síðkastið, hvort sem þær eru kjörnar af þinginu eða skipaðar af ráðherrum. Ríkisstjórnin getur ekki verið trúverðug í jafnréttismálum nema hún gangi á undan með góðu fordæmi - og ég get engan veginn tekið undir það að hér sé um flókið mál að ræða. Í því að setja fram lista með jöfnu kynjahlutfalli gæti falist örlítið samráðsferli milli flokkanna. Ef þetta eru flókin verkefni, hver eru þá einföld?

En svona til að röfla ekki bara, þá vil ég fagna tilkynningum um tvö mikilvæg mál í dag, en það er annars vegar samþykki ríkisstjórnarinnar á aðgerðaáætlun vegna mansals (sem felur m.a. í sér að kaup á vændi verði gert refsivert) og hins vegar skipun í nefnd um undirbúning við kynjaða hagstjórn. Hver vill veðja að það verði bara konur í þeirri nefnd?

*Uppfært 16:50: mér var að berast svar frá Guðbjarti Hannessyni, forseta Alþingis, þar sem hann ítrekar nokkurn veginn svarið sem er birt á vefnum visir.is í dag (sjá að ofan).
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment