10.12.08

tölvukerfi landamæravarða í Bandaríkjunum hrynja

Vinkona mín var í heimsókn á Íslandi í síðustu viku og flaug heim til Boston á sunnudag. Rétt áður en hún kom að landamæraeftirliti hrundi tölvukerfi Heimavarnaráðuneytisins og hafði þær afleiðingar að fletta þurfti handvirkt upp á hverjum og einum farþega og bera nafn og vegabréfanúmer við farþegalista sem eru sendir á undan fluginu. Vinkona mín býr í Boston og DC, en stoppaði á fyrrnefnda staðnum þessa nótt svo hún missti a.m.k. ekki af tengiflugi. Sögunni frá henni fylgdi hinsvegar að þegar svipað ástand kom upp í sumar hafi fingraför verið tekin með bleki af öllum sem ekki voru bandarískir ríkisborgarar. Nógu er nú skemmtilegt að fara í gegnum eftirlitið þarna venjulega! Næsti póstur á eftir þessum frá vinkonu minni var svo frá skrifstofu ráðstefnunnar sem ég fer á í NY í febrúar - að minna mig á að skrá mig fyrir brottför svo ég lendi ekki í vandræðum við komu.

Það er víst ekkert einsdæmi að tölukerfin hrynji svona, hér er skemmtileg bloggfærsla þar sem Wired lýsir því hvernig þau fengu upplýsingar um það hvernig kerfið (sem kostaði litlar 400 milljónir dollara) hrundi 2005. Reyndist vera vírus en DHS vildi ekki viðurkenna það. Verður áhugavert að heyra hvað þetta var.
Setja á Facebook

2 comments:

Anonymous said...

Vegna þess að "tölvukerfið" sjálft, miðlæga móðurtölvan, sýkist ekki af vírus, þá munu þeir halda því fram að "kerfið" hafi ekki sýkst af vírus. Hins vegar kemur stundum fyrir að tölvuormar komast inn í útstöðvar sem tengdar eru móðurtölvunni og sýkja þá allar hinar útstöðvarnar því þær eru allar á sama staðarnetinu.
Það er undarlega algengt að Windows-útstöðvar á sérhæfðum tölvukerfum séu ekki uppfærðar með tilliti til öryggisþátta. Það er margt sem kemur til, t.d. eru slík kerfi oft á lokuðum netum sem eru einangruð frá öðrum tölvunetum, t.d. Internetinu og veitir það umsjónarmönnum falska öryggiskennd. Einnig myndu slíkar uppfærslur þýða hlé á þjónustu viðkomandi útstöðvar.
Oftast eru það svo þjónustuaðilar sem óafvitandi bera ormana eða veirurnar inn á slík lokuð net. Þetta hefur komið fyrir flugumsjónarkerfi, heimabanka og fleiri þannig sérhæfð kerfi, sem síðar reyndust vera með svo fornar útgáfur windows-stýrikerfisins að þau voru galopin fyrir eldgömlum óværum.

Anonymous said...

Ég skrifaði þarna "heimabanka" en þar átti að standa "hraðbanka".

Post a Comment