Sótti alveg gífurlega skemmtilegan fyrirlestur Huldu Þórisdóttur á föstudag, þar sem hún fjallaði um ótta og stjórnmál. Viðtal við Huldu var í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöld, fyrir þau sem misstu af fyrirlestrinum, þó hún hafi ekki farið í nákvæmlega sama efni þar og í viðtalinu.
Í framhaldi af því rakst ég á þessa grein í NY Times um helgina. Greinin er eftir Gregory Berns, sem er tauga-hagfræðingur við Emory-háskóla í Bandaríkjunum. Hann segir að við núverandi efnahagsástand (í Bandaríkjunum) sé fólk svo hrætt við að missa vinnuna og ævisparnaðinn að óttinn taki völdin. Þess vegna sé nær ómögulegt að hugsa um nokkuð annað en hvernig við tryggjum eigin hag. Ekkert gott getur leitt af ákvarðanatöku undir þessum kringumstæðum, því ótti hvetur til flótta - hann dregur úr framþróun. Nýrra hugmynda er hvað mest þörf núna en allir reyna að bjarga því sem eftir stendur.
Berns og kollegar hans gerðu tilraunir á fólki, þar sem það var sett í MRI skanna og gefið raflost. Í upphafi hverrar tilraunar var fólki sagt hversu sterkt lostið yrði og hversu lengi þyrfti að bíða eftir því. Nær þriðjungur kaus frekar að fá stærra lost fyrr en minna seinna - óttinn var verri en reynslan sjálf. Þetta eru áhrif ótta á ákvarðanatöku. Gæti skýrt ýmislegt sem er í gangi hér heima þessa dagana.
8.12.08
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Hvernig er það, er VG íhaldssamur flokkur eins og skilja má af inngangi Loga Bergmanns að fréttinni? Hverskonar vitleysa er þetta?
Sæll Þór,
Hulda skýrði "íhaldssemi" í erindi sínu á föstudaginn ekki sem pólitíska íhaldssemi, heldur meira í átt við fastheldni. Ég skil hana þarna þannig að hugmyndir VG byggi á stöðugum grunni og fólk leiti í staðfestu/öryggi á umrótstímum. Þannig sé VG "íhaldssamur" flokkur.
kv,
Silja
Post a Comment