21.10.08

tvær vikur í kosningar

Það styttist óðum í kosningar í Bandaríkjunum. Forsetakosningar virðast vera nokkuð ráðnar - þó ég telji enn að það geti ýmislegt komið upp sem gæti breytt niðurstöðunum. Það er líka enn mögulegt að hin svokölluðu Bradley-áhrif gætu spilað inn í, þ.e. að fólk segist ætla að kjósa frambjóðanda úr minnihlutahópi en geri það svo ekki þegar á hólminn er komið. Eitt af aðalatriðunum fyrir Obama er svo auðvitað að allt það fólk sem framboð hans hefur komið á kjörskrá skili sér þegar á hólminn er komið. Það eru ýmis vandamál fyrirsjáanleg, m.a. þarf fjöldi fólks að kjósa á kjörseðlum "með fyrirvara", þar sem (oftast) innsláttarvillur eru í opinberum skrám og nöfnin stemma því ekki milli kjörskrár og annarra skráa. Þó svo margir þessara kjósenda eigi rétt á því að kjósa má því reikna með því að atkvæði þeirra verði dæmd ógild. Þetta ofan á það, auðvitað, að fjöldi Bandaríkjamanna sé ekki skráður á kjörskrá (71% hvítra, 49% asískra, svartir og latneskir þar á milli).

Ég hef lítið verið að blogga vegna þess að mér finnst ekki mikil spenna eftir í þessu - Obama er kominn með meirihluta sem verður varla hnikað nema eitthvað meiriháttar komi upp á. Honum er m.a.s. spáð sigri í Virginíu, þar sem Bush sigraði með 8% mun bæði 2000 og 2004. Ekki er hægt að spá fyrir um sigurvegara í Norður-Karólínu, þar sem Bush sigraði með 12% mun bæði 2000 og 2004. Svo hefur það eflaust áhrif á mig eins og flesta aðra að heimurinn hvarf nokkurn veginn þegar fjármálakrísan byrjaði hér heima, nær engar fréttir ná í gegn vegna þess að maður hugsar bara um innanlandsmál.

En auðvitað getur ýmislegt gerst enn. Palin gæti dregið fjölda íhaldssamra kjósenda á kjörstað. Ungir og nýskráðir kjósendur gætu ekki skilað sér fyrir Obama. Það sem er kannski áhugaverðast núna er hvernig stjórn það verður sem tekur við - sigri Obama og fái demókratar yfirgnæfandi fylgi í báðum deildum þingsins hafa þeir tækifæri til að stjórna eins og gert var á fyrstu árum Bush stjórnarinnar - og það er ekki endilega gott.
Setja á Facebook

3 comments:

Anonymous said...

Sæl Silja Bára,

takk fyrir upplýsandi og skemmtileg skrif, ég kíki reglulega hingað inn. Nú þegar kosningarnar nálgast er ekki laust við að maður fái fiðrildi í magann þó svo að úrlistin virðist ráðin, eins og þú segir. Mér finnst ótrúlegt að það sem var svo fjarlægt fyrir nokkrum árum sé nú að verða að veruleika.

Ég hef áður lagt hér inn spurningu inn í athugasemdakerfið og varstu fljót að svara og vil ég þakka kærlega fyrir það. Nú er svo komið að ég hef aðrar spurningar, bara tvær reyndar, og það væri frábært ef þú gætir gefið þér tíma í að svara þeim eða bent á áhugaverða linka.

Fyrst með skattastefnuna. ég viðurkenni það að ég veit ekki mikið um skattastefnu Obama eða McCain og er soldið föst í "he sais-she said" umræðunni, þ.e. hvor hefur rétt fyrir sér. Gætir þú útskýrt hver skattastefna þessara ágætu manna er og hver bein áhrif af henni yrði á bandaríkst samfélag? Og þegar McCain bendir á hvað stefna Obama sé vitlaus, er eitthvað til í því hjá kallinum? Er skattastefna Obama góð og raunsæ?

Seinni spurningin snýr að Obama. Ég bjó rúmt ár í USA og var margt við samfélagsgerð landsins sem kom mér á óvart, eiginlega varð ég fyrir svolitlu sjokki. T.d. hversu mikil stéttaskipting ríkir í raun, fátæktin í fo mörgum hverfum(miðað við ísland allavegana), hversu "devided" þetta land er i raun, hversu menntakerfið er ábótavant og stéttskipt, heilbrigðiskerfið os.frv. ÞEgar ég heyrði Obama fyrst tala, og hlustaði svo á fleiri ræður og las mér til, féll ég alveg í stafi. Mér fannst, næstum því, ég í fyrsta skipti heyra Bandarískan stjórnmálamann tala líkt því sem maður er vanur í Evrópu, af skynsemi og yfirvegun. Einnig talaði hann um þau vandamál sem ég upplifði í USA og hvernig hann vildi m.a. gera USA réttlátari. En eftir því tíminn sem líður renna oft á mig tvær grímur. Er þetta ekki of gott til að vera satt? Mun Obama breyta einhverju? Verður hann ekki bara enn einn kerfikallinn sem festist þar? S.s. eftir þessa löngu ritgerð mína-hvernig heldur þú að Obama muni reynast í raun og veru? Hvernig forseti verður hann? Hvað mun gerast í hans tíð? (ERfitt að spá en gaman væri að heyra álit þitt.)

ooppppssss, þetta áttii ekki að verða svona langt en vona að þú nennir að lesa þetta.

Takk takk

Anonymous said...

Allt of snemmt að spá Obama sigri. Tvær vikur í pólitík er langur tími.

Ég er á póstlista hjá Obama.com og fæ reglulega bréf frá þeim með fréttum og beiðnum um fjárstuðning..:-) sem maður getur að sjálfsögðu ekki sinnt. En í síðasta bréfi er kosningaskrifstofan að vara einmitt við því að slaka núna á. Það má alls ekki gerast. Vonandi gerist það ekki.

Hvernig er staðan með Ohio og Florida? Er nauðsynlegt fyrir Obama að landa öðru eða báðum þessara fylkja til að vinna?

Anonymous said...

Samkvæmt nýjustu tölum CNN 21.okt er hann 9% stigum yfir í Ohio og 4%stigum yfir í Flórída:
http://edition.cnn.com/ELECTION/2008/map/polling/index.html

En samkvæmt útreikningum CNN þarf hann að vinna hvorugt ríkið ef að hann heldur hinum sem CNN gefur Obama:
http://edition.cnn.com/ELECTION/2008/calculator/

Post a Comment