15.10.08

Nixon og Kennedy í kappræðum 1960

Fyrstu sjónvarpskappræður í forsetakosningum í Bandaríkjunum fóru fram 1960 þegar öldungadeildarþingmaðurinn John F. Kennedy bauð sig fram gegn varaforsetanum Richard M. Nixon. Kennedy skoraði á Nixon að mæta sér í sjónvarpi og the rest is history eins og kaninn segir. Nixon kunni ekki á þetta fyrirkomulag, neitaði að láta farða sig og mætti í ljósum jakka við ljósan bakgrunn (starfslið hans lét mála bakgrunninn nokkrum sinnum áður en kappræðurnar hófust en hann var alltaf of ljós og var m.a.s. blautur meðan þær fóru fram - og spáið í að þeim datt það í hug frekar en að redda nýjum fötum á hann). Þar á ofan var hann með rjúkandi hita og hóf kvöldið á því að dúndra öðru hnénu í bílhurð - það eftir að hafa eytt tveimur vikum á spítala eftir sambærilegt óhapp sem leiddi af sér sýkingu í hné. Þetta var sumsé ekki kvöldið hans - þó mér finnist hann ekki líta nærri jafn illa út og ég hafði alltaf ímyndað mér.

Hér er smá klippa um kappræðurnar þar sem fræðsluefni er skotið inn á milli.


Hér er svo lengra myndband af kappræðunum sjálfum. Kennedy notar þarna línu sem ég man eftir að Obama notaði í ræðunni sinni í Denver: Demókratarnir eru flokkur Wilsons, Roosevelts og Trumans segir Kennedy - Obama sagði Roosevelt, Truman og Kennedy.


Þetta voru mjög tæpar kosningar - þeir sem hlustuðu á kappræðurnar í útvarpi töldu Nixon hafa unnið, þeir sem horfðu í sjónvarpi töldu Kennedy vera sigurvegarann. Hann vann kosningarnar með 100.000 atkvæða mun. Þetta voru fyrstu kappræðurnar sem snérust í lokin um ímynd, ekki málefni. Núna er það ímynd og persónuleg saga, ekki málefni.

Kappræður kl. eitt í nótt - ætli ég vaki ekki eftir þeim!
Setja á Facebook

3 comments:

Unknown said...

Já þetta finnst mér áhugavert ágæta Silja Bára.

Anonymous said...

"þeir sem hlustuðu á kappræðurnar í útvarpi töldu Nixon hafa unnið, þeir sem horfðu í sjónvarpi töldu Kennedy vera sigurvegarann."

Ég held að það séu ekki til neinar rannsóknir sem styðja það heldur er þetta ein lífseigasta míta í kosningafræðum. En vissulega var Kennedy flottari í þessum kappræðum en áhrif þeirra eru ofmetin.

Réðustu úrslitin ekki af einhverju mafíusvindli Kennedyanna.

Kveðja, Einar Mar

Silja Bára Ómarsdóttir said...

Lítið til af rannsóknum, en hér eru nokkur dæmi: http://www.pollster.com/blogs/did_nixon_win_with_radio_liste.php. Benda reyndar á að útvarpshlustendur voru líklegri til að halda með Nixon svo útlitið spilaði kannski ekki svo mikla rullu.

Eru ekki svindl í öllum kosningum sem leyfa það? bandaríska kerfið er meingallað - sjáðu Acorn málið núna?

Post a Comment