12.10.08

kemur alltaf kona

Þetta ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur hefur gengið manna í millum síðustu vikuna, og á vel við ástandið þessa dagana:

Þegar allt hefur verið sagt
þegar vandamál heimsins eru
vegin metin og útkljáð
þegar augu hafa mæst
og hendur verið þrýstar
í alvöru augnabliksins
- kemur alltaf einhver kona
að taka af borðinu
sópa gólfið og opna gluggana
til að hleypa vindlareyknum út.

Það bregst ekki.


Ástandið á mörkuðum er hræðilegt og í fjölskyldum flestra eru einhverjir sem hafa misst vinnuna eða munu missa hana á næstu dögum, vikum og mánuðum. Við heyrum talað um samstöðu - að nú sé ekki tíminn til að leita að sökudólgum heldur þurfum við að vinna okkur út úr þessu ástandi. Ég er innilega sammála því að við þurfum öll að hjálpast að, það þarf að laga ýmislegt. Ég vil hins vegar nota tækifærið til að horfa til baka og læra af því sem fór úrskeiðis til að tryggja að við gerum ekki sömu mistökin aftur. Það gefst núna tækifæri til þess að breyta ýmsu sem hefði lengi mátt betur fara. Við lifum á ótrúlegum tímum, augnabliki þar sem hægt er að breyta og bæta, ekki bara byggja aftur upp kerfi sem var gallað. Ég vona að okkur beri gæfa til þess að læra saman, vinna saman og breyta saman. Eitt af því sem ég hef áhuga á að sjá er samfélag sem byggir á jafnréttisgildum. Núna eru a.m.k. konur að komast að í stjórnunarstörf - og með blönduðum stjórnum gætu þær jafnvel haft áhrif á kerfið sem þær taka nú yfir.

Ég hef í nokkurn tíma fylgst með rannsóknaverkefni við Exeter-háskóla sem heitir Glerkletturinn (Glass Cliff) (fyrsta umfjöllunin um þetta var á BBC 2004). Rannsóknin bendir á að konur (og minnihlutahópar) eru líklegri til að hljóta framgang í stjórnunarstörf þegar fyrirtækið eða deildin er við það að fara í þrot. Business Week var síðast með grein um þetta í september. Ég velti fyrir mér hvort ljóðið hennar Ingibjargar eigi ekki við um þetta - að konurnar komi til að lofta út og þrífa. Ef vel gengur - og ekki verður hugarfarsbreyting - verður þeim svo ýtt til hliðar aftur. Ef við getum breytt hlutunum gætum við staðið uppi með betra kerfi - sem lítur á langtímahagsmuni en ekki skammtímagróða - og þar sem karlar og konur taka jafnan þátt í ákvarðanatöku og stefnumótun. Það er alveg þess virði að ganga í gegnum nokkur erfið ár ef það verður niðurstaðan.
Setja á Facebook

2 comments:

Anonymous said...

Skemmtilegt, þetta ljóð var notað lengi í íslenskuprófi í Garðaskóla, 9 eða 10 bekk. Nemendur voru látnir túlka ljóðið og segja sögu þess. Flestir voru á þeirri skoðun að ljóðið fjallaði um skrúingakonu og sáu ekki dýpri merkingu, en einstaka nemandi áttaði sig, sérstaklega þeir sem voru með glöggan kennara:-) Ég er einmittt þessa daganna að lesa ævisögu Ingibjargar.
Hvernig er þetta með rússa, sá frétt þess efnis að þeir væru að unirbúa kjarnorkustyrjöld! Verðum við ekki fyrst til að grillast?
Hver er staðan er nýtt kalt stríð í raun skollið á?

Oddný er said...

Takk fyrir frábæru síðuna þína Silja Bára. Af því ég er alltaf að lofta út og snýta börnum og skúra þá finn ég mér sjaldan tíma til að fylgjast með bandarísku forsetakosningunum.

En það er allt í lagi því ég les síðuna þína í staðinn.

Svalt kvennaráð!

Post a Comment